Hver er með leiksýningu? - Má nota lög um peningaþvætti?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.5.2010.

Sigurður Einarsson og ýmsir sjálfskipaðir verjendur gerenda í hruni íslenska hagkerfisins hafa haldið því fram að aðgerðir Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, séu leikþættir.  Ég get ekki annað en sagt á móti:

Sé þetta leikþáttur, þá er hann viðeigandi framhald af þeim leikþáttum sem komu á undan.  Það eru dæmigerð viðbrögð þeirra sem hafa slæman málstað að verja, að gera litið úr málflutningi og aðgerðum hinna.  Þetta er dæmigerð smjörklípa a la Davíð Oddsson.


Við skulum búa okkur undir, að reynt verði að grafa undan öllum aðgerðum sérstaks saksóknara.  Menn munu beita málþófi, útúrsnúningum, bera fyrir sig vitrænum réttlætingum og þekkingarleysi og allt sem hönd festir á í aumri tilraun til að krafsa sig upp úr kviksyndinu sem þeir óðu sjálfir út í.

Ég hvet fólk til að hafa í huga, að þessir aðilar og samverkafólk þeirra úthlutuðu sér 7.100 milljarða úr sjóðum bankanna, ef marka má skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Það gerði það ekki óvart, af gáleysi, þekkingarleysi eða vegna þess að það væri lögleg og eðlileg viðskipti.  Nei, þetta var gert á skipulegan hátt með mjög markvissum aðgerðum, sem ekki standast neinar reglur og lög um fjármálafyrirtæki.  Aðgerðirnar fengu meira að segja nafn, "skýstróksáætlunin"!  Siðblinda þessara einstaklinga er slík að ekki einu sinni illa haldnir drykkjumenn eru í jafnmikilli afneitun.

Staðreyndir málsins eru að búið er að fletta ofan af svikamyllunni.  Hún var svakalegri en nokkrum manni datt í hug, sem var utan klíkunnar.  Það besta sem þessir aðilar gera í stöðunni er að leysa frá skjóðunni, viðurkenna afbrot sín og sætta sig við þá refsingu sem mun fylgja.  Í mínum huga mun sú refsing alltaf verða of væg.  Höfum í huga að afleiðingar aðgerða þeirra eru t.d. sundrung heimila, atvinnumissi á annan tug þúsunda einstaklinga, fjöldi heimila býr við mjög kröpp kjör og líða skort, fólk hefur svipt sig lífi vegna þessa og ég gæti haldið áfram.  Allt vegna þess að nokkrir stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja sáu ekki fótum sínum forráð í græðgikasti.  Þeir urðu að ná í eina krónu í viðbót handa sér og sínum eða var það einn milljarður í viðbót.

Bullið í stöðunni er þó, að ekki er hægt að leiðrétta stöðu heimilanna.  Nei, þrátt fyrir að komið hefur í ljós að áfallið, sem heimilinu urðu fyrir, var vegna skipulagðrar glæpastarfsemi (samkvæmt stefnu slitastjórnar Glitnis), þá eiga heimilin að bera tjón sitt óbætt.  Mig langar að benda á, að 2% einstaklinga og 7% fyrirtækja áttu góðan helming allra peningalegra eigna á Íslandi við hrun bankanna (skv. skýrslu RNA).  Hvernig væri að Alþingi setti lög, þar sem settur er himinn hár fjármagnstekjuskattur á þennan hóp og skatturinn notaður til að bæta heimilum landsins tjón sitt?  Einnig skora ég á sérstakan saksóknara að nota lög um peningaþvætti til að leggja hald á allar eignir þeirra sem tóku þátt í Hrunadansinum, því samkvæmt lögunum þarf viðkomandi að færa sönnur á að peninganna hafi verið aflað með löglegum hætti.  Heimilin í landinu þurfa ekki nema ca. 300 milljarða til að fá hlut sinn réttan.  Er ég nokkuð viss um að þeir leynast sem illa fengið fé inni á íslenskum bankareikningum.