Fáránleiki verðtryggingarinnar - Lausnin er að stytta í lánum eins og fólk frekast ræður við

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.1.2010.

Ég var að leika mér með tölur í kvöld og reiknaði m.a. út áhrif verðtryggingar á 20 m.kr. lán til 40 ára.  Niðurstöðurnar komu mér svo sem ekkert á óvart, en þær eru samt fáránlegar.

Sé tekið 20 m.kr. lán til 40 ára, gert ráð 5,0% vöxtum og að verðbólga sé 6% á ári (nokkurn veginn söguleg verðbólga síðustu 20 ára), þá greiðir lántaki til baka 131 m.kr.  Af þessari tölu eru verðbætur og áhrif vegna verðbótanna í formi hærri vaxtagreiðslu alls 91 m.kr.  Þessi tala fæst með því að reikna út heildargreiðslu án verðbólgu (þ.e. 40 m.kr.) og draga frá 131 m.kr.  Verðtryggingin er að kosta lántakann 91 m.kr.

Breytum nú forsendum og færum verðbólguna niður í 4%.  Þá er heildargreiðslan 85 m.kr. og verðbótaþátturinn því 45 m.kr.  Við 2,5% verðbólgu lækkar heildargreiðslan í 62 m.kr. og verðbótaþátturinn i 22 m.kr.

Tekið skal fram að reiknað er með jöfnum afborgunum, en samkvæmt þeirri aðferð er greiðslubyrðin há til að byrja með en lækkar svo eftir því sem á lánstímann líður.

Ef þetta er skoðað út frá jafngreiðslu láni (annuitetslán), þá fer heildargreiðslan miðað við 6,0% verðbólgu upp í 185 m.kr. eða hækkar um 54 m.kr. og verðbótaþátturinn verður 139 m.kr.  (Heildargreiðsla án verðbólgu er um 46 m.kr.)

Sé láninu aftur breytt í 20 ára jafngreiðslulán, þá er heildargreiðslan 60 m.kr. (eða innan við þriðjungur af heildargreiðslu 40 ára láns) og verðbótaþátturinn um 29 m.kr. (eða um 20% af verðbótaþætti 40 ára láns).

Vissulega skiptir upphæð mánaðarlegrar greiðslu nokkru um hvaða leið fólk hefur efni á ætli fólk að taka 40 ára lán, þá er betra að vera með jafnar afborganir en jafnar greiðslur.  Mánaðarlegar greiðslur eru vissulega hærri til að byrja með, en munurinn er ekki það mikill.  Síðari hluta lánstímans verður munurinn aftur óhugnanlega mikill jafngreiðsluláninu í óhag.  Ráði fólk á annað borð við þessa greiðslubyrði, þá mæli ég með því að stytt sé í láninu niður í 20 ár og það haft jafngreiðslulán.

(Allir útreikningar voru framkvæmdir á lánareikni Landsbankans.)