Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.5.2010.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er loksins búinn að láta reikna út hvaða upphæð kemur út, ef ætlunin er að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna um annars vegar 10% og hins vegar 20%. Hann lét að vísu bara reikna hvað þetta kostar fyrir hluta lánanna, en það gefur samt góða mynd. Tölurnar koma fram í svari ráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
Samkvæmt svari ráðherra er kostnaðurinn af annars vegar 10% og hins vegar 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána sem hér segir:
(Ég furða mig svo sem á af hverju 20% er ekki sama og tvisvar 10% nema hjá lífeyrissjóðunum.)
Nú skulum við hafa í huga að 10% lækkun er vegna um 11% hækkunar og 20% lækkun er vegna 25% hækkunar. Þessar tölur sýna því ekki hvað forsendubrestur lánanna hefur kostað lántaka. Áður en það er reiknað út vil ég bæta við, að 10% og 20% fyrir aðra lífeyrissjóði gerir annars vegar um 8 milljarða og hins vegar 16 milljarða. Heildarupphæðir væru því 125,5 milljarðar og 245,8 milljarðar.
Sá forsendubrestur sem Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa barist fyrir að verði leiðréttur er eitthvað um 17 - 18%, þ.e. samtökin vilja afturvirkt þak á verðbætur upp á 4% á ári til 1.1.2008. Tekið skal fram að samtökin hafa eingöngu krafist þessarar leiðréttinga á íbúðalán, þ.e. lán sem notuð voru til íbúðakaupa eða framkvæmda við húsnæði eða lóðir. En það skiptir svo sem ekki máli í þessu samhengi.
Aftur að forsendubrestinum. Seðlabanki Íslands gaf frá mars lokum 2001 til haustmánaða 2008 út verðbólgumarkmið, þar sem stefnt var að því að halda verðbólgu í kringum 2,5% með efri vikmörk upp á 4%. Hagsmunasamtök heimilanna hafa skilgreint verðbætur umfram 4% vera forsendubrest á verðtryggðum lánasamningum og telja að lántakar eigi ekki að bera þann kostnað sem af þessu hlýst. Ef tölur ráðherra og viðbót mín eru notað til að reikna út forsendubrestin eins og HH skilgreina hann, þá er upphæðin um 221 milljarður (þ.e. ef 245,8 eru 20%, þá eru 18% 221,2). Þetta er sam sagt það, sem fjárglæfrir eigenda og stjórnenda bankanna og bitlaus efnahagsstjórnun hefur kostað lántaka verðtryggðra lána til heimilanna síðustu 28 mánuði.
Ég lít ekki á leiðréttingu á forsendubrestinum sem kostnað fyrir lánveitendur. Það er verið að skila því sem oftekið var. T.d. er afsökun bankanna engin. Forverar þeirra sköpuðu ástandið og þeir eru því hreinlega skaðabótaskyldir.
Þessar tölur ráðherra sýna bara svart á hvítu hversu mikilvægt það er að losna við verðtrygginguna af lánum til heimilanna. Gagnrýnt hefur verið að heimilin hafi tekið gengistryggð lán, þegar tekjur voru í krónum. Ég tel nákvæmlega sömu rök gilda fyrir því að heimilin taki verðtryggð lán, þegar tekjur þeirra eru óverðtryggðar.
En telji fólk þessar tölur ógnvænlegar, þá langar mig að birta hér nokkrar í viðbót. Í töflunni fyrir neðan sýni ég hækkun vísitöluneysluverðs 40 ár aftur í tímann, þ.e. breytinguna frá hverju ári sem nefnt er til janúar á þessu ári.
Ógnvænlegar tölur ekki satt. Verðbólga á 21 árs tímabili frá janúar 1989 til janúar í ár var 241%. (Er nema von að mér tekst aldrei að greiða niður námslánin mín!) Verðbólga á milli ára hefur farið frá því að vera 1,5% frá janúar 2002 til janúar 2003 og upp í 23,7% fyrsta árið. Í hvert sinn bætast verðbætur ofan á verðbættan höfuðstólinn, þannig að það er ekki bara höfuðstóllinn sem er verðbættur heldur líka verðbæturnar sem höfðu verið lagðar á höfuðstólinn. Þetta er eilífðarvél, að því virðist, sem býr til peninga fyrir lánveitendur. Afsökunin er að verið sé að vernda fjármuni lánveitenda, en í reynd er verið að rýra verðmæti í þjóðfélaginu. Svo má ekki gleyma hvatanum í kerfinu, en hagsmunir lánveitenda (og þá líka þeirra sem veita innlán) byggjast á því að halda verðbólgunni uppi, þar sem þeir fá fjármuni sína verðbætta strax meðan aðrir þurfa að bíða vikur, mánuði og ár eftir því að fá sínar tekjur eða eignir verðbættar.