Bretum gengur illa að skilja

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.1.2010.

Það er með ólíkindum hvað margir illa upplýstir aðilar ryðjast fram á sjónarsviðið og blaðra tóma vitleysu um þetta mál.  Í þetta sinn er að Roy Hattersley, lávarður og fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra.  Maður sem aldrei getur komist yfir það, að breska ljónið laut í lægra haldi fyrir litla Íslandi í þorskastríðunum.

Annars ætla ég ekki að eyða mörgum orðum í blessaðan lávarðinn.  Ekki var hann nú betri Paul Mason hjá BBC Newsnight í innganginum að viðtalinu við Ólaf Ragnar í fyrrakvöld.  Ég held að það hafi verið staðreyndavilla í hverri einustu setningu sem kom út úr manninum.  Sama gildir um margar fréttir BBC um málið.  Þeim virðist fyrirmunað að skilja, að Alþingi er búið að samþykka takmarkaða ríkisábyrgð en það strandaði á Bretum og Hollendingum að hún tæki gildi.

Ég vil taka það fram, að ég hef aldrei verið sáttur við Icesave samninginn, eins og lesa má í nokkrum færslum mínum um málið frá síðasta sumri.  Mér finnst sem ýmsu hafi verið snúið á haus og í reynd sé verið að gera Íslendinga ábyrga fyrir mun hærri upphæð, en haldið hefur verið fram.  Skoðum nokkrar staðreyndir:

  • Iinnstæður á Icesave, KaupthingEdge og Save&Save námu 1.656 milljörðum í lok september 2008.

  • Icesave innstæður í Bretlandi voru 4,6 milljarðar punda, af því falla 2,3 milljarðar punda á íslenska tryggingasjóðinn.

  • Icesave innstæður í Hollandi voru 1,6 milljarður evra, þar af fellur 1,3 milljarður evra á íslenska tryggingasjóðinn.

  • Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að eignir Landsbankans eigi að ganga upp í greiðslu á þessum 4,6 milljörðum punda og 1,6 milljarði evra.

  • Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að komi til greiðslu að hálfu íslenska ríkisins, þá gerist það ekki fyrr en eftir 7 ár.

  • Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að íslenski tryggingasjóðurinn greiði 5,55% vexti af lánum sem Bretar og Hollendingar veita sjóðnum til að standa skil á sínum hluta, þ.e. 2,3 milljaðra punda og 1,3 milljarðs evra.

  • Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að greiðslur frá Landsbankanum fari jafnt upp í fjórar kröfur, þ.e. tvær kröfur hins íslenska tryggingasjóðs (ein vegna hvors lands), eina frá breska tryggingasjóðnum og eina frá hollenska tryggingasjóðnum, þar til annað af tvennu gerist, krafa er uppgreidd eða peningarnir búnir.

Það er þetta síðasta sem ég hef alltaf gert athugasemd við og ítrekað gagnrýnt.  Með því að samþykkja hann lét íslenska samninganefndin einfaldlega plata sig.  Höfum í huga, að væri eingöngu greitt inn á fyrstu 20.887 EUR, þar til sá hluti væri uppgreiddur, þá reyndi ekkert á ábyrgð ríkisins.  Greiðslum til Hollendinga væri lokið á 7 árum, en Breta á 5 árum.  Vaxtakostnaðurinn af þessum greiðslum, þ.e. 2,3 milljörðum punda í 5 ár og 1,3 milljarði evra í 7 ár með lækkandi eftirstöðvum væri miðað við 5,55% og gengi í dag eitthvað um 108 milljarðar.  Það væri kostnaðurinn sem félli á íslenska ríkið og þar með skattgreiðendur.  108 milljarðar sem dreifast á 7 ár er mun viðráðanlegri tala, en 278 milljarða vaxtagreiðsla þó hún dreifist á 15 ár auk höfuðstólsgreiðslunnar, sem við vitum ekki hver verður.

Tvo stærstu mistökin sem gerð voru í upprunalega Icesave samningum voru, að mínu áliti, að samþykkja annars vegar að greiða jafnmikið inn á tryggingar Breta og Hollendinga eins og tryggingar íslenska tryggingasjóðsins og hins vegar að fallast á að vextir væru 5,55%.  Höfum í huga að 5,55% vextir eru hærri vextir, en boðið var á Icesave reikningunum, LIBOR vextir á pund hafa verið innan við 5% í mörg ár og LIBOR vextir á evrur ennþá lægri.  5,55% vextir eru okur, svo einfalt er það.


Hinir þrjósku Íslendingar

Athugasemd frá höfundi við færsluna:

..ég er alveg sammála um að til að geta valið lausnir, þá þurfum við fyrst að skilgreina viðfangsefnið.  Í mínum huga er það frekar einfalt:

Þeir sem áttu innistæður á Icesave eiga að fá eins mikið af innistæðum sínum til baka og hægt er.  Til þess á að nota eignir Landsbankans í samræmi við neyðarlögin, þ.e. að innistæður eru forgangskröfur og koma því á undan almennum kröfum þegar búið er gert upp. Síðan gerist eitt af fernu: 

a) eignir duga fyrir öllum innistæðum - case closed;

b) eignir duga fyrir útlögðum kostnaði tryggingasjóða í þremur löndum - málinu lokað hvað tryggingasjóðina varðar, en innistæðueigendur gætu látið reyna á rétt sinn gagnvart NBI hf. (þ.e nýja Landsbankanum);

c) eignir duga til að greiða fyrir lágmarks tryggingu samkvæmt tilskipun ESB - íslenski tryggingasjóðurinn er laus allra mála, en hinir sjóðirnir og innistæðueigendur gætu viljað láta reyna á rétt sinn gagnvart NBI hf.;

d) eignir duga ekki fyrir lágmarks tryggingu - ríkissjóður Íslands þarf að greiða það sem vantar upp á lágmarks tryggingu, erlendu sjóðirnir og innistæðueigendur gætu viljað láta reyna á rétt sinn gagnvart NBI hf.

Kannski er þetta einföldun, en það er gott að hugsa í einföldum hlutum fyrst og flækja það síðan.

Varðandi vextina, þá getur verið að þetta séu vextir á markaði.  Málið er að hvorki Bretar né Hollendingar tóku lán svo vitað sé og hafi það verið gert var það í formi sölu á ríkisskuldabréfum á mjög lágum föstum vöxtum.  Það er ekki ósanngjarnt að við borgum þeim þá vexti með álagi, því annars er í reynd verið að krefja okkur um að borga meira en þessi 20.887 EUR sem við eigum að borga.  Raunar þýðir 3% álag umfram það sem Hollendingar borga að á 5 árum erum við að greiða rúm 33% af þeirri upphæð sem kemur í hlut hollenska tryggingasjóðsins.  Þannig borga Hollendingar ekki í reynd 300 milljónir evra heldur nær 200 milljónum evra.  Sé álagið 4% þá lækkar talan í 170 milljónir, en okkar greiðsla fer í 1.430 milljónir evra.  Til þess að ekkert félli á hollenska tryggingasjóðinn, þá þarf hann álag upp á rúm 9% miðað við 5 ára endurgreiðslutíma.  Taki endurgreiðslan 15 ár, þá dugar rúmlega 3% álag til að ekkert falli á hollenska tryggingasjóðinn og 4% álag gefur sjóðnum hagnað upp á 90 milljónir evra!