Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.2.2010.
Í tæp níu ár hefur verið ólöglegt að gengistryggja lánasamninga. Þrátt fyrir það hafa fjármálafyrirtæki boðið slíka samninga. Ég er með í skjölum hjá mér afrit af slíkum samningi um bílakaup frá árinu 2001. Ég gerði ekki þann samning, heldur keypti bílinn af þeim sem gerði samninginn og byrjaði á því að gera samninginn upp. En hvers vegna voru þessi lán í boði og hvers vegna létu lántakar fallast í þá freistni að taka slík lán?
Svarið við þessari spurningu er einfalt: Einstaklingar og fyrirtæki sérstaklega voru hætt að hafa efni á hinu hefðbundna íslenska lánakerfi. Innan þess voru tveir slæmir kostir. Annar var 5 - 9% verðtryggð lán. Hinn óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem voru almennt á bilinu 9 - 18%, en áttu það til að fara upp í 25% ef ekki hærra. Þess vegna tóku fólk og fyrirtæki gengistryggð lán. Lántakar voru búnir að gefast upp á okurkjörum hins hefðbundna innlenda lánakerfis.
Auðvitað treystu lántakar á það, að verið var að bjóða löglega afurð og segja má að meðan allt gekk vel, þá var það besta mál. Almennt held ég að lántakar hafi ekki verið að treysta á að gengið héldist mjög sterkt eða styrktist óeðlilega, það var búbót á þeim tíma. Nei, það voru fyrst og fremst hinir lágu vextir sem verið var að sækjast eftir.
Það þarf engan doktor í stærðfræði til að sjá, að lán með 3,5% vöxtum er hagstæðara en lán á 5% verðtryggðum vöxtum eða 9% óverðtryggðum. Vissulega stóð það og féll með gengisþróuninni, en undanfarin 20 ár, var búinn að vera ásættanlegur gengisstöðugleiki og flestir lántaka gátu þolað eðlilega veikingu krónunnar á lánstímanum. Slík veiking myndi hvort eð er mælast í verðbólgu og hækkun breytilegra vaxta. Þetta var því win-win staða hvernig sem á það var litið meðan umhverfi gengismála var eðlilegt. Það sem fólk vissi ekki var að fjármálafyrirtækin voru að missa tökin á hlutunum og vissu líklegast (annað bæri vott um ótrúlega vanhæfni stjórnenda þeirra) í hvað stefndi. Síðan vissu lántakar ekki, að afurðin var ólögleg og það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur hafi það góðan skilning á lögum, að hann átti sig á merkingu þeirra laga sem hér um ræðir.
Ég hef tekið samlíkingu með fæðubótaefnum. Þegar við kaupum slík efni úti í búð, þá reiknum við með að þau innihaldi bara lögleg efni. Komi í ljós að það eru ólögleg efni í fæðubótaefninu og þau jafnvel skaðleg, þá ber söluaðilinn/innflytjandinn ábyrgð og ber að bæta fólki skaða sem það kann að hafa orðið fyrir. Það er aftur ekkert í íslenskum lögum sem veitir innflytjanda rétt til að krefja neytandann um aukalega greiðslu vegna þess að neytandinn fékk óvænta vellíðunartilfinningu af hinu ólöglega efni. Það er því neytandinn sem á hugsanlega skaðabótakröfu út af neikvæðum fylgikvillum, en verður ekki krafinn um viðbótargreiðslu vegna jákvæðra fylgikvilla. Lögin verja neytandann og nú horfum við til Hæstaréttar um túlkun hans á lögunum.
Ef við færum þessa samlíkingu yfir á gengistryggðu lánin, þá reiknuðu lántakar að þau væru lögleg afurð, sem tryggði þeim lægri greiðslubyrði af láni en sambærilegu hefðbundnu láni. Lántakar reiknuðu með að gengið myndi veikjast eitthvað á lánstímanum en að sú breyting yrði að jafnaði minni en áhrif verðtryggingar á verðtryggð lán. Þetta gekk upp til marsbyrjunar 2008, en þá misstu bankarnir tökin á ástandinu. Sumir tala um að þeir hafi stundað markaðsmisnotkun og þetta hafi allt verið hluti af einhverju plotti, ég vil frekar líkja þessu við að spila í rúllettu og veðja alltaf á rautt. Að lokum kemur svart og það gerðist. En stóra málið er, að verðtrygging við gengi er ólögleg (eins og ég hef verið óþreytandi að benda á síðustu 12 mánuði eða svo).
Barátta Hagsmunasamtaka heimilanna hefur snúist um forsendubrest lána. Á þann málflutning hefur ekki verið hlustað nægilega vel. Við hefðum gjarnan viljað láta reyna á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og önnur lög sem tengjast réttmæti lánasamnings og veðsins. Þeirri baráttu er ekki lokið, þó Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms. Forsendubresturinn nær nefnilega til hefðbundinna verðtryggðra lána og vaxta óverðtryggðra lána.