Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.7.2010.
Mig langar að vekja athygli á því að Hagsmunasamtök heimilanna sendu út fyrir nærri hálfum mánuði tillögur að uppgjörsreglum sem taka á öllum þeim atriðum sem Lilja rekur í viðtalinu við Morgunblaðið. Langar mig að stikla á stóru í reglunum, en þær er auk að finna í heild í skrá sem fylgir með færslunni. Nokkur atriði eru þó tekin úr "tilmælum" samtakanna til lántaka sem send voru út í morgun. Þau fylgja líka með.
1. Hvaða lán: Hagsmunasamtök heimilanna gera að tillögu sinni að öll lán með tilgreindan höfuðstól í íslenskum krónum en með gengisviðmið séu höfð með og síðan öll lán þar sem umsóknin var í íslenskum krónum, þrátt fyrir að skuldabréf tiltaki ekki íslenskar krónur enda ráði lántakinn ekkert um það hvaða útgáfa eða útfærsla lánssamnings hafi verið notað.
2. Hvað á að innheimta/greiða: Miðað verði við upphaflega greiðsluáætlun að teknu tilliti til vaxtabreytinga, enda hafi áætlunin ekki verið reiknuð með gengisbreytingum. Hafi lánafyrirtæki boðið lántaka vægari greiðslubyrði, þá gildir hún meðan það samkomulag er í gildi. Sé samtala greiðslna sem inntar hafa verið af hendi hærri en heildargreiðsla samkvæmt greiðsluáætlun skal innheimtu hætt þar til annað kemur í ljós.
3. Réttur lántaka: Hlíti lánveitendur ekki því sem fram kemur í lið 2, þá er það réttur lántaka að:
a. greiða samkvæmt greiðsluáætlun
b. nýta sér samning eða tilboð um annað greiðslufyrirkomulag
c. greiða inn á bundinn reikning (nokkurs konar vörslureikning)
d. greiða ekki, þar sem lántaki efast um réttmæti upplýsinga á greiðsluseðli eða er að eigin mati búinn að greiða meira en nemur heildargreiðslu samkvæmt greiðsluáætlun.
Hvað sem lántakinn gerir skal hann halda lánveitanda vel upplýstum um aðgerðir sínar. Auðvitað má lántaki greiða kröfu eins og hún kemur frá lánveitanda.
4. Uppgjör: Gjalddagagreiðslur eru bornar saman við greiðslur samkvæmt greiðsluáætlun að teknu tilliti til vaxtabreytinga. Jafnað er út því sem hefur greitt of mikið á móti þeim tilfellum þegar greitt var of lítið. Þetta er vaxtareiknað samkvæmt reglum í lánasamningi og 18. gr. laga nr. 38/2001, þegar kröfuhafi skuldar lántaka, en þó þannig að lántakar verða ekki rukkaðir um vanskilakostnað hafi greiðsla verið of lág enda var greitt samkvæmt greiðsluseðlum eða samkomulagi við lánveitandann.
5. Meðferð uppgjörs: Uppgjör getur leitt af sér tvær niðurstöður, að lántaki eigi inneign eða að lántaki skuldi lánveitanda.
5.a Inneignir lántaka: Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að inneignir lántaka fari inn á bundinn reikning í nafni lántaka í lánastofnun að hans vali. Inneignin verði bundin þar til:
a. niðurstaða fæst í fordæmisgefandi dómsmál sem lánveitandi höfðar til að útkljá ágreining;
b. samkomulag hefur tekist um almenna lausn (eða lög sett um hana);
c. gerðardómur hafi fallið um úrlausn ágreinings;
d. samkomulag hefur tekist milli lántaka (eins eða fleiri) og lánveitanda um uppgjörið.
Hagsmunasamtök heimilanna setja lánveitendum tímamörk upp á 3 mánuði að hefja dómsmál, fallast á gerðardóm eða koma til samninga. Inneign geti lántaki síðan fengið útgreidda eða notað til að lækka eftirstöðvar höfuðstóls.
5.b. Skuldir lántaka: Hagsmunasamtök heimilanna leggja til að með skuldir verði farið sem hér segir:
a. skuld sé bætt ofan á höfuðstól og greiðslum sé jafnað út lánstímann;
b. greiða skuldina á allt að 18 mánuðum í samræmi við samkomulag frá 3. apríl 2009;
c. lántaki geri upp skuldina
6. Eldri mál: Hagsmunasamtök heimilanna vilja að þeir sem telja að á sér hafi verið brotið fá sanngjarna og réttláta úrlausn sinna mála. Líklegast er gerðardómur besta leiðin til að leysa slík mál, en búast má við því að lántaka leiti til dómstóla.
7. Skaðabætur: Hagsmunasamtök heimilanna telja eðlilegt að þeir sem telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna aðgerða lánveitenda og áhrifa sem lögmæt gengistrygging hefur haft, geti leitað réttar síns og krafist skaðabóta. Eðlilegast er að fordæmisgefandi dómsmál verði höfðuð.
8. Réttur lántaka til að semja: Hagsmunasamtök heimilanna virða rétt lántaka til að semja við lánveitendur og hvetja lánveitendur til að koma til slíkra samninga af sanngirni og réttsýni.
Ég vona að þetta skýri út afstöðu Hagsmunasamtaka heimilanna til þeirra álitamála sem uppi eru. Samtökin viðurkenna að ekki allir líta málið sömu augum, en telja að málsferðarreglur þeirra séu sanngjarnar og réttlátar og komi í veg fyrir óþarfa flækjur sem gætu skapast síðar, komi í ljós að réttarbót lántaka var minni ætla mætti af dómi Hæstaréttar. Það er engum greiði gerður með því að fá of mikið greitt til baka til þess eins að fá kröfu á sig síðar.
Samráðsvettvangur nauðsynlegur
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: