Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.8.2010.
Það fer ekkert á milli mála, að það sem við höfum orðið vitni að allt frá hruni og hugsanlega fyrir hrun er uppsett leikrit. Vissulega breyttist efnisþráðurinn eftir að bankarnir hrundu, enda fengum við nýjan handritshöfund, en tilgangurinn er sá sami. Hann er að koma sem mestum eignum frá almenningi og almennum fyrirtækjaeigendum í hendur fjármagnseigenda. Eftir hrun kom smá snúningur á þetta varðandi stærstu fyrirtæki landsins, þar sem helstu/stærstu eigendur þeirra teljast til fjármagnseigenda og því er róið að því virðist öllum árum í gömlu og nýju bönkunum að losa þessi fyrirtæki við skuldir. Það er gert með því að færa (samkvæmt fréttum) eignir inn í eitt fyrirtæki í samsteypu, en skilja skuldir eftir í öðrum. Síðan eru skuldsettu fyrirtækin látin fara á hausinn, en gamla fjármagnsklíkan fær að halda fyrirtækinu sem verðmætin eru í. Það er gert með því að láta bankana sölsa undir sig hvert fyrirtækið á fætur öðru og selja það í sýndarferli til útvalinna fjármagnseigenda. Það er gert með því að taka yfir minni eignir (t.d. bíla, vélar, tæki og húsnæði) á skammarlega lágu verði og selja það vildarvinum á sýndarverði svo þeir geti hagnast óhugnanlega með því að selja eignirnar áfram. Dæmi hafa verið nefnd af tækjum sem tekin voru af verktökum og seld úr landi fyrir smámuni til skúffufyrirtækja í útlöndum (í eigu vildarvina) sem síðan selja tækin áfram á réttu verði og hagnast vel. Bílar hafa verið seldir á gjafverði á bílasölu til vildarvina, sem síðan selja þá áfram á réttu verði fyrir Easy buck. Hús eru auglýst til sölu á fáránlega lágu verði, svo kemur tilboð frá almennum viðskiptavini til þess eins að vildarvinurinn býður 500 kr. hærra og því tilboði er tekið á nóinu án þess að öðrum sé gefið færi á að bjóða.
Þetta er leikritið sem er í gangi og þetta láta stjórnvöld líðast. Ekkert af þessu væri hægt nema vegna þess að slitastjórnir, skilanefndir og skiptastjórar leyfa þetta. Fjármálafyrirtæki sem uppvís hafa orðið af því að brjóta lög í allt að 10 ár og starfa utan tilkynntra og auglýstra starfsleyfa fá óáreitt að halda starfsemi áfram. Í Bandaríkjunum hefðu dyr þessara fyrirtækja verið innsiglaðar daginn sem dómar Hæstaréttar féllu, öllu starfsfólki smalað út í rútu af lögreglu og allir bókaðir fyrir þátt sinn í lögbrotinu. Nei, það gerist ekki hér á landi. Hér koma FME og Seðlabanki og kyssa á bágtið. Hér er lögbrjótum bjargað vegna þess að lögbrotið orsakaði forsendubrest hjá lögbrjótnum! Hvað með forsendubrest lántakanna? Nei, hann er ekkert vandamál, vegna þess að hann var skrifaður í upphaflega handritið.
Staðreyndin er að lög og reglur eru fótum troðnar í þessu landi af stórum hluta fjármálakerfisins og af stjórnsýslunni. Fatta menn ekki að það verður ekkert Ísland, ef þetta heldur áfram. Fatta menn ekki að fólk er að gefast upp. Sífellt fleiri tala um að flytja úr landi. Sífellt fleiri tala um að fara í gjaldþrot. Sífellt fleiri ná ekki endum saman. Örvæntingin er sífellt að verða sterkari meðal almennings. Einyrkjar og eigendur smárra fyrirtækja eru margir komnir í spennutreyju fjármálafyrirtækjanna. Þeir, sem geta, koma peningum sínum undan. Fólk sér ekki tilganginn í að standa í skilum.
Toppurinn á þessu leikriti eru fjárkúgunarbréf sem einn banki sendir viðskiptavinum sínum þessa daganna. Já, fjárkúgunarbréf eru það, vegna þess að þau eru ekkert annað. Í þessum bréfum er fólki sagt að það skuldi bankanum fleiri hundruð þúsund í vangreiddar greiðslur lána, ef það samþykkir ekki ofurskilmála um að breyta innihaldi lánasamninga. Svo virðist sem bankinn sé kominn á ystu nöf og hann vilji ekki eiga í frekari viðskiptum við þessa lántaka. Viðskiptavinirnir hljóta að spyrja sig hvort þeir treysti þessum banka um framtíðarviðskipti. Aðferðir hans eru aumkunarverðar og sýnir hann viðskiptavinum sínum lítilsvirðingu. Allt er þetta gert í nafni réttlætis FME og SÍ. Segir ekki í Íslandsklukkunni: Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti. Hvernig getur fólk sem staðið hefur í skilum með allar afborganir lána sinna allt í einu skuldað 43% til viðbótar við það sem það hefur greitt hingað til og greiðslubyrði eftirstöðva hækkað um tugi þúsunda á mánuði. Svo vælir leigupennakór fjármálafyrirtækjanna, að lántakar sem voru með gengistryggð lán séu skuldlausir núna á kostnað skattgreiðenda. Þá er nú betra að vera skuldugur en svona skuldlaus.
Stundum kemur óvæntur snúningur á efnisþráð leikritsins. Það nefnilega villtist utanaðkomandi leikari inn í það. Maður sem var ekki vanur svona handriti. Núna er hann að vandræðast með að lesa handritið og láta líta út sem hann sé professional leikari, en hann er það ekki. Hann er bara amatörsveitó og gleymir línunni sinni aftur og aftur og ruglast á blaðsíðum. Hann lærði ekki trixið við hvítu lygina fyrr en hann var búinn að svara rétt við vitlausri spurningu. Svo hélt hann áfram að svara vitlausum spurningum með svari upp úr handritinu. Hann bara fattaði ekki að hann var á rangri blaðsíðu í handritinu.
Í byrjun handritsins haarderaði aðalleikarinn svo mikið að hann var skrifaður út úr því. Í staðinn kom Lady GreyGrey og hún virðist líka hafa verið skrifuð út úr handritinu. A.m.k. er þetta sá aðalleikari sem minnst hefur komið við sögu í nokkru þekktu leikriti. Það er svo sem eins gott, vegna þess að þessi Lady kann ekki nema eitt orð: ESB. Og það er nefnilega stærsta plottið í leikritinu. Það er ætlun stórs hóps leikaranna að klúðra leikritinu svo svakalega, að kalla þurfi inn leikstjóra frá ESB. Haarderinn fékk leikstjóra frá AGS, en hann er að klikka að mati Ladyinnar og er búinn að leggja til að fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar geri meira fyrir heimilin í landinu en vinstristjórnin vill gera. Það er ekki nógu gott og því þarf að fá leikstjóra frá ESB. Og hvernig er því komið í kring. Jú, það er ekkert gert. Engar ákvarðanir teknar, engri atvinnuuppbyggingu komið í gang, öllum framkvæmdum er frestað vegna tæknilegra formgalla á útboðum, heimilin blóðmjólkuð og fyrirtæki keyrð í gjaldþrot. Það á að drulla svo gjörsamlega upp á bak, að pöpullinn í landinu grátbiður ESB að koma og þrífa upp skítinn.
En Lady GreyGrey er hæst ánægð með ástandið. Því erfiðara sem það verður, því líklegra er að pöpullinn láti glepjast og grátbiðji ESB um að hleypa sér inn. Fólk heldur nefnilega að við getum ekki fengið vanhæfara lið í leikendahópinn en þar er fyrir. Öllum tillögum um uppbyggingu og breytingu er hafnað. Vonarneistinn er slökktur um leið og hann kviknar. Pöpullinn skal skilja að skjaldborgin um heimilin var slegin svo tryggt væri að allur peningur og eignir heimilanna færu ekkert meðan verið væri að færa þær smátt og smátt yfir til fjármagnseigendanna. Nei, skjaldborgin var ekki til að vernda heimilin. Og þegar þriðja valdið lét ekki að stjórn, þá voru eftirlitsaðilarnir sem sváfu á verðinum í 10 ár gerðir að varðhundum og sigað á þá sem dómsvaldið hafði sleppt út úr girðingunni. Til að refsa þeim sem sluppu í nokkra daga, þá skulu þeir borga fjármálafyrirtækjunum 50% ofan á allt sem áður var búið að borga, en skulda samt jafn mikið. Já, pöpullinn skal fá að kenna á því að hann hafi vogað sér að setja sig upp á móti fjármagnseigendunum.
Ég veit ekki hvernig þetta leikrit endar, en næstu þættir líta ekki gæfulega út. Fjárkúgunarbréf eru farin að berast þeim sem sluppu út og blóðhundarnir eru byrjaðir að smala. Amatörsveitó leikarinn er ennþá að ruglast á síðum í handritinu og það verður erfitt að halda honum inni mikið lengur. Vandamálið er þó að Lady GreyGrey kann ekki að smala köttunum sem eiga að syngja í kattakórnum sem á alltaf að hljóma í bakgrunni. Liljur spretta upp þar sem þær eiga ekki að vera og draga ókunna ketti að sér. Pöpulinn þarf samt ekki að óttast, vegna þess að það er verið að kenna honum að trufla ekki vinnandi fólk. Það nefnilega datt einni konu að taka brauðmolana, sem Lady GreyGrey og aðrir leikarar voru að henda í pöpulinn og henda þeim fyrir mávinn. Það truflaði vinnandi fólk og enginn má komast upp með það. Nú er búið að senda þau skilaboð til pöpulsins: Ekki trufla vinnandi fólk. Það gæti gert einhverja vitleysu eins og að lesa ranga blaðsíðu í handritinu.
Eins og leikritið þróast, þá stefnir í að það verði engir áhorfendur að lokahlutanum. Þeir sem ekki verða farnir til útlanda munu ekki hafa efni á að horfa á sýninguna. Náttúrulega fyrir utan fjármagnseigendurna, en þeir eru ekki niðri í salnum. Nei, þeir eru á svölunum, eins og kóngafólkið. Og það klappar ekki, heldur hristir glingrið, eins og Lennon orðaði það svo vel um árið. En það er allt í lagi, þó enginn verði niðri í salnum, því þá eru meiri líkur á að þeir sem eftir eru vilji fá ESB til að leikstýra. Það er jú markmiðið samkvæmt handritinu í dag.
Það virðist vera þörf á nýjum handritshöfundi og með honum góða leikara og innlendan leikstjóra. Þetta handrit sem við höfum í dag sökkar stórt. Það er gjörsamlega vonlaust. Varðandi leikarahópinn, þá getur ekki verið, þó við veljum 12 úr hópi almennings að við endum uppi með jafn vonlaust lið. Vandinn er að pöpullinn er orðinn svo vanur að láta drulla yfir sig, að hann er hættur að bregðast við meira skítkasti. Hann veit líka hvaða skít hann er að fá yfir sig núna og óttast að nýir leikarar sem fara eftir nýju handriti gætu hent yfir hann óþægilegri skít. Það er betra að þola þennan, maður er þó orðinn vanur honum og er farinn að læra að víkja sér undan. "Maður veit aldrei nema ástandið versni, ef við hendur Lady GreyGrey út", hugsa margir. Já, pöpullinn er orðinn svo meðvirkur að hann er meira að segja farinn að vorkenna Lady GreyGrey og Amatörsveitó leikaranum. Svo er líka svo gaman að fylgjast með kattadansinum og -smöluninni. "Látið ekki svona", segja sumir, "Lady GreyGrey er gömul kona og það er ljótt að atast í gömlu konum. Hún þarf að hvíla sig svo mikið og því er hún ekki áberandi. Hún er nú búinn að standa sig svo vel í gegn um tíðina, að það er í lagi þó hún kasti bara skít yfir okkur núna." Já, meðvirknin er pöpulinn lifandi að drepa. Við erum eins og kötturinn sem var verið að merinera lifandi. Þeim sem dettur í hug að trufla vinnandi fólk er bent á að gera ekki slíkan óskunda.
(Þessi færsla er unnin upp úr sögum fólks sem haft hefur samband við mig og samræðum sem ég hef átt við það. Þetta eru ekki orð eins aðila, heldur margra. Þó ég setji þetta á blað, þá eiga viðmælendur mínir jafnmikið söguna/færsluna og ég. Skilaboðin eru: Fólk er búið að fá nóg.)