Forgangsröðun innstæðna er ekki brot á EES-samningnum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.12.2010.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur kveðið upp þann úrskurð að Alþingi hafi verið heimilt að setja þau ákvæði í neyðarlögin frá 6. október 2008, að innstæður væru forgangskröfur í fjármálastofnunum og þar með í þrotabúum slíkra stofnana.  ESA tók fyrir mál nokkurra kröfuhafa og ályktar að gera skuli greinarmun á innstæðueigendum og lánadrottnum.  Staða almenns innstæðueiganda (depitors) sé frá upphafi önnur en lánadrottins (creditors), þar sem innstæðueigandi geti ekki varið sig með sama hætti og lánadrottinn.

Ekki er í ákvörðun ESA tekið á álitamálum sem uppi eru varðandi Icesave eða aðra netreikninga erlendra aðila, en sé ég fyrir mér að Kaupþingi verði samkvæmt þessu ekki stætt á því að vísa vaxtakröfum vegna slíkra reikninga í almenna kröfuröð.  Einnig gæti verið að lögaðilar sem lögðu inn á innstæðureikninga gætu allt í einu átt kröfu á bankana um útgreiðslu á innstæðum sínum.

Áhugavert er að sjá, að ESA telur neyðarlögin auka á löglegan hátt við innstæðutryggingar.  Almenn lög um slíkar tryggingar veiti lágmarkstryggingu en ekkert banni að við þá tryggingu sé aukið. Þetta styður við ályktanir mínar að ofan um að ekki verið hægt að mismuna innstæðueigendum eftir stöðu þeirra, þ.e. einstaklingar, lögaðilar, stofnanir, góðgerðarfélög, sveitarfélög, o.s.frv., og hvort innstæðan sé innlögn eða vextir.

ESA færir m.a. þau rök fyrir því að innstæðueigendur eigi að njóta meiri verndar út frá því að innstæður séu almennt skammtíma innlán og eigendur þeirra geti nálgast peninga sína fyrirvaralaust.  Það sé því nauðsynlegt að verja þær til að koma í veg fyrir áhlaup sem gætu sett rekstur fjármálafyrirtækis á hliðina og þannig í reynd stefnt kröfum lánadrottna í voða (án þess að ESA segi þetta síðasta beint út). 

ESA kveður úr um í úrskurði sínum að lánadrottnum hafi ekki verið mismunað við aðskilnað gömlu bankanna og þeirra nýju, þar sem kröfuhafar hafi í reynd orðið eigendur nýju bankanna í gegn um kröfur sínar í gömlu bankana.  Ekki hafi verið brotið gegn frjálsu flæði fjármagns við uppgjörið á milli gömlu og nýju bankanna.

Áhugavert er að ESA fer síðan í að réttlæta niðurstöðu sína, þó svo að stofnunin segi fyrst að hún þurfi þess ekki.  Nefnir ESA að bankakerfi sé svo mikilvægt ekki bara hagkerfinu heldur einnig almannaöryggi, þar sem greiðslukerfi þjóðar treysti á bankakerfið.  Áhlaup á banka myndi ekki leiða til neins annars en hruns fjármálakerfisins.  Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi verið eðlileg aðgerð til að endurvekja traust innlendra innstæðueigenda á öryggi innstæðna þeirra.  Og ESA heldur áfram með því að benda á, að neyðarlögin hafi verið sett með virkni hagkerfisins í huga, en ekki  hag einstaka innstæðueigendur.  Bendir stofnunin á mikilvægi bankanna þriggja fyrir hagkerfið, þar sem nánast hver einasta fjölskylda og fyrirtæki í landinu hafi átt í viðskiptum við bankana.  Að veði hafi verið stór hluti innstæðna í landinu, fyrirtæki hefðu ekki getað greitt fyrir vöru og þjónustu, borgað út laun, innflutningur hefði stöðvast, neytendur hefðu ekki getað nálgast peningana sína og þar með velta nánast stöðvast.  Fólk hefði ekki getað staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar o.s.frv.

Í punkti 104 er viðurkennt að íslensk stjórnvöld hafi gert fjölmörg mistök í aðdraganda hrunsins, en það breyti ekki lögmæti neyðarlaganna.

--

Ég held að íslensk stjórnvöld geti ekki kvartað undan þessu áliti ESA.  Raunar fá neyðarlögin, að þessu leyti, hæstu einkunn.  Ég velti því samt fyrir mér hvort þessi úrskurður opni ekki á að erlendir innstæðueigendur gætu átt meiri rétt á gömlu bankana sem gæti að lokum fallið á skattgreiðendur.  Þá er ég að vísa til þess að allar innstæður voru tryggðar upp í topp með tilfærslu þeirra í kröfuröð.  Lendi erlendir innstæðueigendur í því að fá ekki innstæður sínar greiddar upp í topp, þá gæti myndast krafa á íslenska ríkið, þar sem ekki hafi verið gætt jöfnuðar milli innlendra og erlendra innstæðueigenda.  Á þetta líklegast eingöngu við í tilfelli Landsbankans og síðan hvað varðar vexti á innstæðum hjá hinum bönkunum.