Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.9.2010.
Sama er hvar litið er til í íslensku efnahagslífi, alls staðar blasa við sömu staðreyndir. Yfirskuldsetning vegna falls krónunnar og yfir 50% verðbólgu síðustu ára er að kafsigla öllu. Bæjarfélög eru á heljarþröm, orkufyrirtæki eru sokkin í hyldýpi skulda, rekstrarfyrirtæki eru skuldsett upp í rjáfur og heimilin sjá ekki til sólar vegna himin hárra lána. Hvenær ætla stjórnvöld og fjármálakerfið að átta sig á því að aðeins eitt er til ráða. Fara þarf í gagngera og róttæka endurskipulagningu, leiðréttingu og niðurfellingu skulda.
Veruleikinn er grákaldur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjanesbæ. Báðir aðilar tóku þátt í stóriðjuævintýri sem virðist ekki hafa góðan endi. Hvað er til ráða? Annar aðilinn vill hækka gjaldskrá og varpa skuldunum yfir á saklausa almenna viðskiptavini fyrirtækisins, hinn heldur á í höndunum skuldabréf sem kann að vera verðlaust og á því þann kost einan að auka álögur á íbúa sveitarfélagsins sem berjast við mesta atvinnuleysi á landinu. En álögur verða ekki auknar endalaust, auk þess sem Orkuveita Reykjavíkur getur líklegast ekki lögum samkvæmt varpað þessum byrðum yfir á almenna orkukaupendur.
Hvað er þá til ráða? Svarið er það sama alls staðar: Stilla þarf skuldum í viðráðanlegt horf og annað hvort geyma það sem umfram er þar til betur árar hjá viðkomandi skuldurum eða fá skuldirnar felldar niður. Íslenskt hagkerfi er of skuldsett sem nemur fleiri þúsund milljörðum. Þó svo að við sleppum skuldum hrunsbankanna, þá eru þær skuldir sem eftir eru einfaldlega of miklar. Fjármálafyrirtæki, hvorki innlend né erlend, munu hagnast á því að yfirtaka skuldsettar eignir. Reykjanesbær getur ekki sameinast öðru bæjarfélagi og þannig komist undan skuldum sínum. Ekkert annað bæjarfélag mun vilja taka við þeim eiturbikar sem skuldastaða þeirra suður með sjó er. Fyrir utan að 20-30 sveitarfélög eru í viðlíka vanda. Hvaða gagn er að vara sveitarfélög við vanda sem þau bæði vita af og sjá ekki fram úr að geta leyst?
Stjórnvöld verða að taka af skarið. Þau verða að fá fjármálafyrirtæki hér innanlands og utan til að taka þátt í alsherjar endurskipulagningu skulda heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga. Ef þessir aðilar eru ekki tilbúnir í slíkt, þá verður einfaldlega að setja lög sem verja lántakendur fyrir því að gengið sé að eigum þeirra meðan þeir eru að vinna sig út úr vandanum. Best er að lánadrottnar sýni lántakendum sínum skilning og taki þátt í endurskipulagningunni. Nauðsynlegt verður að afskrifa háar upphæðir, en þær eru mjög oft hvort eð er tapaðar eða að viðkomandi fjármálastofnun tók þær yfir á mun lægra bókfærðu virði, en krafan hljóðar sem verið er að innheimta.
Ég talaði fyrir því strax 30. september 2008, að nauðsynlegt væri að skipta skuldum lántakenda (þá horfði ég fyrst og fremst til heimilanna, en sá fyrir mér að fyrirtæki og sveitarfélög væru í svipaðri stöðu) upp í "viðráðanlegar" skuldir og síðan þær sem væru "óviðráðanlegar". Lánadrottnar yrðu að sætta sig við að innheimta "viðráðanlegu" skuldirnar, en frysta þær sem væru "óviðráðanlegar". Ég held að ég hafi haft rétt fyrir mér og mér sýnist einmitt staða Reykjanesbæjar, Álftaness og Orkuveitu Reykjavíkur ber þess skýr merki.
En hvenær voru skuldir "viðráðanlegar" og hve lengi þarf að geyma hinar "óviðráðanlegu"? Við viljum halda að skuldir hafi verið viðráðanlegar í upphafi árs 2008. Að minnsta kosti voru lántakar almennt ekki farnir að æmta undan skuldabyrðinni þá. Frá þeim tíma hafa verðtryggðar skuldir hækkað um tæp 30% og gengistryggðar og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað að meðaltali um 75% og allt að 152% séu lánin í jenum. Ekki þarf snilling til að sjá, að erfitt er að ráða við svona stökkbreytingu skulda.
Ekki er þó sanngjarnt að sleppa lántökum við alla hækkunina sem orðið hefur og þess vegna verður að finna einhverja sanngjarna niðurstöðu. Vil ég í því samhengi benda á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna, sem lagt hafa til að sett verði 4% þak á árlegar verðbætur og að gengistryggð lán og lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu færð yfir í verðtryggð lán miðað við stöðu þeirra 1.1.2008 og fengju því 4% þakið á sig frá þeim tíma. Hvort erlendir lánadrottnar væru tilbúnir að fallast á þetta er ólíklegt, en því ekki prófa. Ástandið fer stig versnandi. Fleiri og fleiri heimili, fyrirtæki og sveitarfélög eru að komast í óviðráðanlegan vanda og voru nógu margir fyrir í þeim hópi. Álögur verða ekki auknar og ekki verður hægt að láta lífeyrissjóðina hlaupa alls staðar undir bagga.
Satt best að segja, þá sé ég ekki margar leiðir út úr þessum vanda. Einn er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki yfir allar þær eignir sem þeir eiga veð í og eignist stóran hluta eigna í landinu. Annar er að lífeyrissjóðirnir gerist björgunarsjóður Íslands, sem er í reynd óbein þjóðnýting á lífeyrissjóðunum eða a.m.k. hluta eigna þeirra. Einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum verði gefinn kostur á mjög ódýrum lánum (og afborgunarlausum til margra ára) frá lífeyrissjóðunum fyrir hinum "óviðráðanlega" hluta lána sinna, en héldu áfram að greiða af "viðráðanlega" hluta lánanna. Þriðji kostur og sá sem ég held að sé óumflýjanlegur, er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki á virkan hátt þátt í endurreisn hagkerfisins með því ýmist að fella niður eða frysta á lágum eða engum vöxtum hinn stökkbreytta hluta lána heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga.
Spilaborg hins íslenska efnahagsundurs hrundi í októberbyrjun 2008. Líkja má afleiðingunum við að íslenskt efnahagslíf hafi lent undir þykkri aurskriðu. Við höfum verið að vinna okkur í gegnum skriðuna og reynt að bjarga því sem bjargað verður. Eftir því sem við komumst neðar í skriðuna, sjáum við betur hve tjónið er mikið. Það, sem virtist heilt, er meira að segja stórlega skaddað og geta okkar til að endurreisa það sem sópaðist í burtu er takmörkuð. Nýtt upphaf verður ekki nema skuldir verði stilltar af þannig að fólk og fyrirtæki geti skilað af sér sköttum og arði til samfélagsins. Eins og staðan er, vantar bæði getuna og hvatann. Hvaða tilgangur er að greiða af lánum, þegar ekki sér högg á vatni? Hvaða framtíð býður þetta þjóðfélag upp á, ef álögur á fólk og fyrirtæki eru svo þungar að enginn stendur undir þeim? Mér sýnist því miður, sem óveðursskýin séu enn og aftur að hrannast upp við sjóndeildarhringinn og munu koma í veg fyrir að geislar vonarglætunnar berist til okkar.