Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.8.2010.
Mér finnst skýring Seðlabankans ekki vera góð. Fyrir nokkrum vikum beið bankinn ekkert með að taka afgerandi afstöðu án þess að vera með skýran lagastuðning. Í fyrra hafði bankinn tækifæri til að koma hér í gang opinni og víðtækri umræðu um lögmæti gengistryggðra lána sem ég hafði hafið með færslu hér á þessari síðu í apríl sama ár. Bankinn gat líka tekið undir varnaðarorð Björns Þorra Viktorssonar, lögmanns, um að gengistryggð lán gætu verið ólögleg. Nei, bankinn ákvað að þegja yfir áhyggjum sínum og er því beint valdur af þeirri óvissu sem hér ríkti í marga mánuði.
Umræða hefði líka orðið til þess að menn hefðu nálgast endurreisn bankanna á annan hátt. Kröfuhafar hefðu vitað af óvissunni. Bæði kröfuhafar og AGS voru felmtri slegnir yfir því að ólögleg gengistrygging hafi verið við líði í 9 ár hér á landi. Það var talið hafa rýrt traust erlendis á Íslandi að þessi ólöglegu lán hafi viðgengist allan þennan tíma. Hvað ætli verði sagt núna, að Seðlabanki Íslands hafi haft í maí 2009 undir höndum lögfræðiálit, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að lánin væru líklegast ólögleg? Hvernig á nokkur maður að geta treyst íslenska stjórnkerfinu?
Gleymum því svo ekki, að Gylfi Magnússon sagði í viðtali 10. september sl., eins og kemur fram í athugasemd Gunnars Tómassonar hér við aðra færslu, að “það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg.” Greinilegt er að Seðlabankanum hafi verið í lófalagið að leiðrétta þetta með því að senda lögfræðiálitið og minnisblað aðallögfræðings bankans til viðskiptaráðherra. Auðvitað skipti það mjög miklu máli að Seðlabankinn gerði þetta álit ekki opinbert og má flokka það undir ein stærstu mistök hagsögunnar. FME hefur metið tjónið upp á allt að 350 milljarða (þó ég kaupi ekki þá tölu).
Seðlabankinn ætlar greinilega ekki að sitja einn uppi með klúðrið og sendir boltann áfram. Hann segist hafa sent lögfræðingi viðskiptaráðuneytisins álitið. Næst er að spyrja hvað hann gerði við skjalið. Stakk hann því undir stólinn eða fór það eitthvað lengra? Var Gylfi að ljúga, þegar hann sagði að gengið hafi verið út frá því að lánin væru lögleg, vissi hann ekki af álitinu eða taldi hann ekki þörf á því að taka það alvarlega? Svör þurfa að fást við þessu.
Ég átta mig á því að tilgangur Seðlabankans með því að fá álitið var ekki vegna þess að bankinn efaðist um lögmæti gengistryggðra lána. Bjóða átti fyrirtækjum lán í íslenskum krónum, sem endurgreidd yrðu í erlendri mynt. En bankinn fékk meira en hann bað um og hann hefði átt að nýta sér álitið á annan hátt en hann gerði. Því miður klúðraði hann hlutunum. Líklegasta ástæðan er meðvirkni. Áfallið á fjármálamarkaðnum var þegar orðið svo mikið að fyrirtækin gætu ekki þolað meira. Ég kann því miður enga aðra skýringu. Málið er að þessi afstaða Seðlabankans er mögulega að valda gríðarlegu tjóni fyrir stóru bankana. Sérstaklega Landsbankann. Bankinn er líklegast í þeirri stöðu að hann þolir engin frekari áföll. Ég fæ reglulega tölvupósta frá fólki innan úr fjármálageiranum og þó ég sé ekki að greina alltaf frá innihaldi þeirra, þá eru þessir aðilar undantekningarlaust sammála um að staða Landsbankans sé það slæm, að ekki sé víst að hann lifi af. Þess vegna er starfsfólk á bónusum við innheimtu og þess vegna er hraka Landsbankans í innheimtu jafnmikil og raun ber vitni. Ef gengið hefði verið út frá því við endurreisn nýja Landsbankans (þ.e. NBI) að gengistryggingin væri ólögleg, þá væri staða hans hugsanlega betri. Ef Gylfi Magnússon segir að það hafi ekki verið gert, þá verð ég að reikna með því að það hafi ekki verið gert. Niðurstaðan af því er að stjórnvöld hljóti að hafa samið af sér við endurreisn NBI.
Það er rangt hjá Seðlabankanum að þegar álitið var unnið hafi átt sér stað töluverð opinber umræða um lögmæti gengistryggðra lána. Hún var lítil og hún var úr einni átt, þ.e. ég, HH og Björn Þorri vorum eiginlega að tala út í loftið, þar sem engin viðbrögð komu frá opinberum aðilum. Ef álitið hefði verið opinberað, þá hefði það hleypt nauðsynlegu lífi í umræðuna og styrkt málstað okkar sem voru nokkurn veginn að berjast við vindmyllur. Andstæðingurinn ákvað að taka ekki á móti. Fjármálafyrirtækin hefðu ekki komist hjá því að taka til andsvara, ef minnisblað Seðlabankans hefði verið birt.
En þetta er vatn undir brúna og telst glatað tækifæri. Spurningin er hvort stjórnsýslan geti lært af þessu og hvernig hún fer með þann lærdóm. Í mínu starfi þarf ég sífellt að nýta áföll og atvik til að læra af og koma í veg fyrir að það endurtaki sig eða að eitthvað annað geti gerst. Ég tel að Seðlabankinn og stjórnsýslan geti dregið þann lærdóm að hunsa ekki svona aðvörun. Eiga einhverjir að segja af sér? Það er úr vöndu að ráða og fer eftir því hver vissi hvað. Hver tók ákvörðun um að hunsa álitið? Hafi það verið ráðherra, þá á hann að taka hatt sinn og skó. Svo einfalt er það.
Seðlabankinn getur ekki annað en birt lögfræðiálit LEX og minnisblað aðallögfræðings bankans. Honum er ekki stætt á öðru. Bankinn þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum og ekki væri verra ef hann bæðist afsökunar á því að leyna þjóðina svona mikilvægum upplýsingum. Það er enginn að segja að bankinn hafi átt að kveða upp dóm, en í ljósi þeirrar umræðu sem bankinn segir sjálfur að hafi verið í gangi, þá bar honum að gera niðurstöður álitsins opinberar. Það hefði verið ákaflega gott veganesti fyrir hið nýja Ísland sem ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar voru að bögglast við að skapa. Því miður reyndist gamla Ísland leyndarhyggju og pukurs ráða ríkjum og við eigum því miður eftir að súpa seyðið af því á næstu árum.