Breyta þarf lögum um nauðungaruppboð - Veit þarf þolanda forkaupsrétt til að koma í veg fyrir brask

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.10.2010.

Ég sendi Ögmundi Jónassyni, dómsmála-, mannréttinda- og samgönguráðherra, sl. miðvikudag 29. september eftirfarandi tölvupóst með hugmyndum um breytingu á lögum um nauðungarsölur:

Sæll Ögmundur

Ég vil læða að hugmynd.  Nú eru nauðungarsölur komnar á fullt og er það til mikilla vansa.  Kröfuhafa leika þann ljóta leik að bjóð lágt í eignir og eignast þær fyrir lítið.  Ég vil því leggja til eftirfarandi breytingu á nauðungarsöluferlinu:

1.       Við nauðungarsölu falli niður kröfur sem ekkert fæst upp í.  Þetta hvetur kröfuhafa til að bjóða hærra verð en annars yrði gert.

2.       Þolandi nauðungarsölu hefur rétt á að ganga inn í það tilboð sem hæst er boðið og hafi hann 3 mánuði til að ákveða sig og fjármagna kaupin.

3.       Þolandi nauðungarsölu hefur rétt til að ganga inn í fyrstu sölu á eigninni eftir nauðungarsölu.  Þetta gerir það að verkum, að hann getur nýtt sér lækkað verð eignarinnar hafi kröfuhafinn talið sig þurfa að lækka verðið.

Atrið 1 minnir um margt á lyklafrumvarp Lilju, en samt ekki, þar sem því er ætlað að þvinga fram hærra verð, þannig að þolandi nauðungarsölunnar skuldi minna að lokinni sölunni en ella.  Atriði 2 og 3 er hægt að hrinda í framkvæmd með einfaldri lagabreytingu án þess að verið sé að skerða eignarrétt kröfuhafa.  Þar sem atriði 1 segir að kröfur sem ekkert fæst upp í falli niður, þá gæti þolandinn vissulega setið uppi með kröfu umfram kaupverð, en líklegast væri auðveldara að semja við kröfuhafa um það en áður, þegar hugsanlega voru kröfur á síðari veðréttum sem nú hafa dottið út.

Bara pæling.

Kv.

Marinó

Ögmundur svaraði mér strax um hæl og þakkaði fyrir hugmyndirnar.  Ég vona að þær verði skoðaðar, þar sem það fyrirkomulag, að þolandi nauðungarsölu hafi forkaupsrétt á eign allt fram yfir fyrstu sölu eða þess vegna í tiltekinn tíma, þannig að forkaupsrétturinn gæti náð til framhaldssölu, gæti komið í veg fyrir brask með eignir sem bitnar síðan eingöngu á þeim sem misst hefur heimili sitt á nauðungaruppboði.  Eins og ég bendi á í póstinum, þá tel ég þetta ekki á nokkurn hátt raska eignarréttarvörðum hagsmunum kröfuhafa eða þess sem kaupir eignina eða leysir hana til sín á uppboði.