Færslan var birt 10.9.2010 kl. 00:53 á Moggablogginu.
Gamall stjórnmálamaður stakk niður penna og fékk birta grein í Fréttablaðinu sl. miðvikudag. Hann rifjar í greininni upp gamla tíma um spillingu sem viðgekkst í þjóðfélaginu og vanmátt stjórnvalda, Seðlabanka og fjármálafyrirtækja til að vera með alvöru hagstjórn á Íslandi. Hann fjallar um það hvernig stjórnmálamenn, Seðlabanki og fjármálafyrirtæki létu það viðgangast að sparifé landsmann brann upp, lán urðu að engu og brauðið tvöfaldaðist í verði á einni dagstundu. Já, hann lýsir í grein sinni vanhæfni eldri kynslóða til að láta þjóðfélagið standa á eigin fótum. Þessi kynslóð fann upp á því að leysa vandann með því að innleiða verðtryggingu. Til að byrja með var allt verðtryggt, en svo sáu menn að það gekk ekki. Þá var ákveðið að búa til tvær stéttir í landinu, fjármagnseigendur sem fengu launin sín í verðtryggðum krónum og launþega sem fengu launin sín í óverðtryggðum krónum. Síðan þetta gerðist, þá hefur eignartilfærslan verið frá hinum vinnandi stéttum til fjármagnseigendanna. Ekki bara einu sinni, heldur minnst þrisvar, hefur orðið á stuttum tíma mikil og snögg tilfærsla eigna frá þeim sem hafa þurft að lifa við óverðtryggðar tekjur til hinna með verðtryggðu tekjurnar. Og inn á milli hefur þessi tilfærsla verið hæg og róleg en með mikinn eyðileggingarmátt.
Í upphafi þessa tímabils fékk ég námslán og síðan aftur nokkrum árum síðar. Við lok náms míns skuldaði ég um 1.400 þúsund kr. Á hverju ári hef ég greitt af lánunum með um 4,0% af tekjum mínum (eða hvort það er 3,5%) sem jafngildir hátt í 7% af ráðstöfunartekjum mínum á hverju ári eða hátt í einum mánaðarlaunum. Maður skyldi nú ætla að lánið væri uppgreitt á yfir 20 árum, þar sem upphæðin var ekki há. Nei, svo er ekki, þökk sé verðtryggingunni. Eftirstöðvarnar um síðustu áramót voru tæpar 1.800 þúsund kr. Vissulega eru þetta ekki jafngildar krónur og fyrir 20 árum, en þær draga samt til sín sama hlutfall launa minna núna og þá. Þær eru því sami dragbíturinn á heimilisbókhaldið og fyrir 20 árum. Þessu kerfi vill stjórnmálamaðurinn gamli viðhalda af því að hann heldur að Ísland í dag sé jafn vanþróað efnahagslega og þegar flestir þingmenn komu úr sveitum landsins (og fresta þurfti þinghaldi um sauðburð og réttir) og hagfræðimenntað fólk mátti telja á fingrum annarrar handar (ekki að fjölgun þeirra tryggi eitt eða neitt). Þegar karlar af kajanum sáu um ávöxtun á fé lífeyrissjóðanna og þegar fella þurfti gengið ef ekki veiddist nóg af þorski eða heitt var í veðri í Evrópu þannig að fiskneysla dróst saman.
Mig langar að benda hinum gamla stjórnmálamanni á að tímarnir hafa breyst. Nú eru það fjármálafyrirtækin, en ekki sjávarútvegsfyrirtækin, sem stjórna gengi krónunnar og halda á fjöreggi þjóðarinnar. Þau ákveða hvort hér sé þensla eða samdráttur og um leið ákveða þau hve miklar tekjur þau hafa af verðbótum. Það hafa orðið endaskipti á hlutunum. Annað sem hefur breyst er að fleiri stoðum hefur verið skotið undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Ferðamenn, þjónustuútflutningur og stóriðja eru orðin mun stærri en sjávarútvegurinn. Þjóðfélagið er vissulega en viðkvæmt fyrir áföllum í sjávarútvegi, en ekki nándar eins mikið og áður fyrr. Fyrir nokkrum árum voru þroskveiðiheimildir skertar um 20% eða svo. Um 1980 hefði þetta haft í för með sér að minnsta kosti 10% gengisfellingu, en í þetta sinn styrktist gengið!
Verðtryggingin er að éta þetta þjóðfélag upp innan frá. Tengingin við lán heimilanna er gleggsta dæmið. Fyrirtæki og heimilin reyndu að flýja þetta umhverfi með því að leita í gengistryggð lán, en fjármálakerfið kunni að verja sig og hefnd þess var grimm.
Stærsti vandi verðtryggingarinnar er að fjármagnseigendur geta alltaf leitað í öruggt skjól sama hvaða vitleysu þeim dettur í hug. Þurfi bankakerfið að hressa upp á efnahagsreikninginn, þá má bara skapa þenslu eða eignabólu svo hægt sé að lána meira. Verðtryggingin fóðrar sjálfa sig með því að vera verðbólguhvetjandi.
Gamli stjórnmálamaðurinn óttast að gamli tíminn muni koma aftur, ef dregið verður úr vægi verðtryggingarinnar. Honum tekst nefnilega ekki að hugsa út fyrir kassann. Í löndunum í kringum okkur er vissulega boðið upp á verðtryggð skuldabréf, en engum dettur í hug að binda almenning á klafa verðtryggingarinnar. Meira að segja Evrópusambandið varar við því að í boði séu verðtryggð neytendalán og ætti nú öldungurinn að leggja við hlustir, þar sem hans flokkur telur allt heilagt sem frá ESB kemur.
Mér er alveg sama þó sveitarfélög eða fyrirtæki taki verðtryggð lán eða gefi út verðtryggð skuldabréf. Fjármálafyrirtækjum er líka velkomið að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga. En leggja á af sem fyrst verðtryggingu lána sem almenningi bjóðast. Við getum byrjað á því að setja þak á árlegar verðbætur sem lækkar hægt og örugglega uns verðtryggð neytendalán heyra sögunni til. Þannig gæfist útgefendum verðtryggðra neytenda lána svigrúm til að aðlagast breyttum aðstæðum.
En hvað með lífeyrissjóðina, tauta líklega einhverjir. Já, hvað með lífeyrissjóðina. Þetta er ein af þessum síbyljum og grátkórum sem heyrist vel í, þegar rætt er um að afnema verðtrygginguna. Ja, lífeyrissjóðirnir verða bara að vera duglegri við að ávaxta fé sitt, sýna meiri útsjónarsemi og hætta að treysta á sjálfvirkar varnir við hagsveiflum. Þeir verða bara að hafa fyrir hlutunum eins og almenningur í landinu. Af hverju eiga lífeyrissjóðirnir að vera í eitthvað meiri vanda við að viðhalda eignum sínum en almenningur að vinna upp í skuldir sínar. Lífeyrissjóðirnir eru í eigu sjóðfélaga og eiga því að vinna með heildarhagsmuni sjóðfélaga í huga. Hluti af þeim hagsmunum er að byggja hér upp heilbrigt lánakerfi með viðráðanlegum lánakjörum fyrir sjóðfélagana. Sjóðfélagar eru ekki til fyrir lífeyrissjóðina, það er öfugt. Sjóðfélagi sem á nærri skuldlaust húsnæði við lok starfsævi sinnar er mun betur settur en sá sem á bara helminginn í húsinu sínu og fær kannski 20% hærri bætur. Í árslok 2008 voru skuldir heimilanna við fjármálakerfið rétt rúmlega 2.000 milljarðar litlu meiri en eignir lífeyrissjóðanna sem þá stóðu í 1.700 milljarðar (+/- það sem síðar reynist þurfa að afskrifa). Á sama tíma var fasteignamat húsnæðis landsmanna um 40% hærra eða 2.800 milljarðar. Af skuldum heimilanna voru 700 milljarðar vegna verðbóta frá aldamótum. Af eignum lífeyrissjóðanna voru innan við 300 milljarðar vegna verðbóta á sama tíma. Viljum við virkilega halda í verðtrygginguna svo lífeyrissjóðirnir geti tryggt sér 43% af því sem verðtryggingin hefur hækkað lán landsmanna (og þar með sjóðfélaga) frá aldamótum?
Með því að setja fyrst þak á árlegar verðbætur og síðan afnema þær með þaki á óverðtryggða vexti húsnæðislána, þá köllum við fjármálakerfið til ábyrgðar á því að viðhalda stöðugleika. Sé verðbólga lítil, þá þarf ekki háa óverðtryggða vextir til að fá jákvæða raunvexti. Í 1,5% verðbólgu gefa 5% nafnvextir 3,5% raunvexti. Málið er að núverandi fjármálakerfi treystir á verðbólguna til að tryggja sér tekjur í formi verðbóta. Það er mergur málsins og þess vegna verður að grípa inn í.
Já, en verðbólga síðustu ára hefur verið svo mikil að óverðtryggt sparifé mun brenna upp, segir örugglega einhver. Ok, hefur fólk velt því fyrir sér hve oft verðbólgan hefur verið innan við 4% á síðustu tuttugu árum? Ég hef skoðað það og niðurstaðan er að það hefur gerst 118 sinnum af síðustu 236 mánuðum samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Já, frá janúar 1991 hefur ársverðbólga á hverjum tíma (verðbólga mæld í 12 mánuði) verið í annað hvert skipti undir 4%. Líklegt er að næstu fjórar verðbólgumælingar gefi allar ársverðbólgu um og undir 4%, þannig að af 20 árum verða rúmlega 10 með ársverðbólgu undir 4%. Færum mörkin í 6%, þá fjölgar mánuðunum í 173 eða tæpalega 3 af hverjum 4. Séu mörkin við 3%, þá eru mánuðirnir 93 eða tæp 40%. Og 80 mánuðir af 236 mælast með innan við 2,5% ársverðbólgu sem voru verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
Ég er sannfærður um að fjármálakerfið hefði hagað sér af meiri ábyrgð og hógværð á árunum fyrir hrun, ef það hefði ekki haft þá hækju sem verðtryggingin er. Lífeyrissjóðirnir hefðu þurft að leggja meiri vinnu í hluta fjárfestinga sinna, en höfum í huga að á árunum fyrir hrun kom langstærsti hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna frá óverðtryggðum eignum.
Mín niðurstaða er að við getum vel verið án verðtryggingar. Byrjum á því að setja þak á árlegar verðbætur og afnemum hana svo á nokkrum árum (eða þess vegna strax) af neytendalánum. Síðar er hægt að afnema hana af öðrum útlánum fjármálafyrirtækja, en við getum ekki bannað fyrirtækjum að fjármagna sig með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa. Varðandi verðtryggð innlán, þá verður hvert og eitt fjármálafyrirtæki að eiga það við sig hvort það vilji bjóða upp á þau. Jafnframt þessu verður að afnema öll verðtryggingarákvæði í öðrum samningum, svo sem leigusamningum. En það er ekki nóg að afnema verðtrygginguna, ef í staðinn koma himin háir óverðtryggðir vextir. Í Danmörku hafa fjármálafyrirtæki myndað þegjandi samkomulag um að íbúðalán beri ekki hærri vexti en 5%. Íslandsbanki býður þegar upp á svipaða vexti vegna húsnæðislána. Þetta ástand þarf að vera viðvarandi. Í Noregi geta íbúðaeigendur fært sig á milli fastra eða breytilegra vaxta eftir því hvernig horfir í hagkerfinu. Þegar útlit er fyrir meiri verðbólgu, þá færa þeir sig í hrönnum yfir í fasta vexti, en velja breytilega vexti, þegar útlit er fyrir stöðugleika. Með þessu er ábyrgðinni á viðhaldi stöðugleikans varpað yfir á fjármálafyrirtækin, enda eiga þau ekki að nota almenna lántaka sem stuðpúða þegar áhættustýringin klikkar. Vel rekið fjármálafyrirtæki á að verja almenna lántaka og innlánseigendur fyrir áföllum í efnahagslífinu.