Verkamaður hraunar yfir "stjörnulögfræðing"

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.2.2010.  Efnisflokkur:  Rökleysa

Ég hvet alla að lesa grein Jóns Þorvarðarsonar, verkamanns, sem birt er í Morgunblaðinu í dag.  Óhætt er að segja að hann hrauni yfir Hróbjart Jónatansson, lögmann Avant, í grein sinni, en Hróbjartur staðhæfir í greinargerð unninni fyrir Avant að bílalán fyrirtækisins séu afleiður.  Sannast með þessu að stundum eru menn "too smart for their own good".  Hróbjarti yfirsást að Avant hefur ekki leyfi til að sýsla með afleiður, óskráðar afleiður má bara selja fagfjárfestum, þeir einir mega selja afleiður sem eru með tilskylda menntun og próf og svona mætti lengi telja.

Hér eru nokkur atriði úr grein Jóns:

Það er því ljóst að:

1. Avant hefur ekki heimild til að stunda viðskipti með fjármálagerninga, afleiður eru fjármálgerningar.

2. Avant fól sölumönnum bifreiða án tilskilinna réttinda til verðbréfaviðskipta, að selja grunlausum almenningi afleiður.

3. Avant hefur aldrei lagt mat á undirritaðan sem fjárfesti, og ber að efast um að slíkt mat hafi nokkru sinni farið fram á vegum Avant. Óskráð verðbréf má skv. lögum aðeins selja til fagfjárfesta.

4. Avant gerði undirrituðum aldrei grein fyrir því á nokkrum tímapunkti að um afleiðuviðskipti væri að ræða.

5. Avant gerði greiðsluáætlun fyrir afleiðuviðskipti eins og um lán væri að ræða (Á hvaða forsendum?)

6. Avant hefur aldrei gert samning við undirritaðan sem almennan fjárfesti hvar réttindi og skyldur eru útréttaðar eða skilgreindar eins og þeim ber samkvæmt tilskipunum og lögum.

7. Avant dulbjó afleiðu sem lánasamning sem nefndur er "kaupleigusamningur - Jafnar greiðslur".

8. Avant hefur aldrei kynnt undirrituðum verklagsreglur sínar við slík viðskipti og slíkar reglur finnast ekki á heimasíðu Avant, þrátt fyrir lögbundnar kvaðir þar um.

9. Avant hefur aldrei í neinum auglýsingum eða kynningarefni gefið til kynna að bílasamningar þeirra væru afleiðusamningar.

Af ofangreindu er ljóst að Avant hefur ítrekað brotið öll möguleg lög um neytendavernd, viðskiptahætti auk laga um fjármálafyrirtæki og FME ber því að svipta lánastofnunina starfsleyfi sínu samkvæmt 9. gr. laga nr. 161 frá 2002 um fjármálafyrirtæki. Ennfremur hlýtur lántakendum að vera heimilt að rifta þeim ólöglegu afleiðusamningum sem lánastofnunin hefur gert í ljósi alvarlegra brota fyrirtækisins gagnvart neytendum og krefjast bóta í framhaldinu. Þar ber Fjármálaeftirlitinu að taka frumkvæði sem lögbundinni eftirlitsstofnun.

Óhætt er að segja að eitt gott hafi komið út úr kreppunni:  Stór hluti landsmanna eru orðnir bara alveg ágætlega að sér í lögfræði og hagfræði.

Viðbót úr athugasemd:

Bjarni skrifaði:

Ég er með bílasamning við SP sem þeir mæla í SP5, sem mér skilst að sé ólöglegur gjaldmiðill (http://thordisb.blog.is/blog/thordisb/).

Grunngengi þess gjaldmiðils er 80 samkvæmt greiðsluseðlum en gengi nú er 198.

Samkvæmt greiðsluplani er ég búinn að greiða tæpa milljón of mikið en skulda núna tæpa 1,5 milljón meira en ég tók af láni, samt er ég búinn að greiða meira en þá upphæð sem ég tók af láni.

Minnir að samkvæmt greiðsluplaninu þá sé ég að greiða 1 milljón í vexti og kostnað á þessum 8 árum (er búinn að borga í 4 ár).

Samkvæmt greiðsluplami ætti 3.5 milljóna lán til 8 ára að standa í 1500 þús (miðað við 4.8 í heildargreiðslu) í dag, gott og vel.

Í dag stendur það í 4,9 milljónir.

Ég er búinn að greiða um 3.8 milljónir.

Ég setti mig í samband við hagsmunasamtök heimilanna og fékk þeirra álit á þessu láni. Í framhaldi af því sendi ég bréf þar sem ég áskil mér rétt til að greiða aðeins af láninu eins og greiðsluáætlunin hljóðar upp á.

Tekið var á móti bréfinu og hafði ég það í tvíriti og lét SP staðfesta móttöku þess þar sem þeir höfðu 3 virka daga til að mótmæla.  Þetta var 17. feb. sem ég fór með bréfið og hef ekkert heyrt í þeim.

18. feb. hringdi ég til að fá upplýsingar um bankanúmer og þess háttar og útskýrði fyrir starfsmanni innheimtu hvað væri í gangi. Þvílíkann fyrirlestur fékk ég frá starfsmanni um að það væri slæmt að lenda í vanskilum og bla bla, ég benti henni á bréfið sem þau hefðui kvittað fyrir móttöku og fór hún þá í baklás. Vildi vita efni bréfsins sem ég gaf ekki upp ítarlega, spurði hvort að lögfræðingur hefði móttekið það osfrv.

Þegar hún uppgötvaði að mér var alvara með mínum aðgerðum, þá endaði hún á að segja mér að það gæti verið að ég skuldaði þeim meira. Nú spurði ég. Ja sko, ef dómur fellur og þetta verður fellt niður, þá verður þetta bundið við verðtryggingu og þau lán hafa sko hækkað meira.

Ég sagði, takk fyrir mig. Við vitum bæði að það gerist aldrei, enda það ekki fyrir dómi.

Síðan hef ég ekkert heyrt í þeim.

Hvet alla til að ganga hart að sínum lánveitendum, sínum samtöðu.