Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.5.2010. Efnisflokkur: Skuldaúrræði
SP-fjármögnun sér sæng sína út breidda og býður lækkun höfuðstóls gengistryggðra bílalána. Lána sem fyrirtækið mátti ekki bjóða lögum samkvæmt, lán sem voru í ókennilegum sjóðseiningum sem það hafði ekki starfsheimildir til að bjóða, lán sem það sagðist hafa veitt í gjaldeyri til viðskiptavina, þó fyrirtækið hefði ekki heimild til gjaldeyrisviðskipta.
Tökum nú viljann fyrir verkið, þá hefði ég viljað sjá í yfirlýsingu fyrirtækisins, að það bætti ÖLLUM viðskiptavinum sínum sem gengið hefur verið að og verið sviptir bílum sínum, þann skaða sem það hefur valdið þeim. Ég ítreka ÖLLUM og það innan 14 daga, án undanbragða og án vífillengja.
Í mínum huga er SP-fjármögnun, líkt og Íslandsbanki, að kasta inn handklæðinu. Fyrirtækin viðurkenna að lánin sem þau veittu standast ekki bókstaf laganna. Nú á að koma með eitthvað PR stunt korteri áður en Hæstiréttur fellir dóm sinn um lögmæti gengistryggðra lána. Vissulega getur dómur Hæstaréttar fallið á hvorn veginn sem er og ekkert er öruggt, en miðað við útspil SP-fjármögnunar, sem hefur verið mjög stíft í öllum samskiptum sinum við viðskiptavini, þá eru menn greinilega orðnir sannfærðir um það á hvorn veginn dómurinn fellur. Það er nokkuð skondið, þar sem SP-fjármögnun vann sitt mál fyrir héraðsdómi í desember.
Á næstu dögum getum við átt von á því að önnur bílalánafyrirtæki komi fram með svipuð tilboð. Það er gott og blessað, en furðulegt að það hafi tekið menn allan þennan tíma að komast að þessari niðurstöðu.
Annars kíkti ég á síðuna hjá SP-fjármögnun og sá hvers konar kjarnaboð þetta er hjá fyrirtækinu. Kjósi viðskiptavinir að breyta í verðtryggt lán, þá ber það 7,95% vexti, en sé lánið óverðtryggt, þá eru vextirnir 12,65%. Miðað við þetta veðjar fyrirtækið á 4,7% verðbólgu. Fyrirtækið má eiga það, að það viðurkennir, að lítil sem engin breyting verður á greiðslubyrði. Einnig má segja því til hróss, að það býður lækkunina, þó svo að lántaki greiði lánið upp. Í þessu öllu les út nokkur atriði. Eins og ég bendi á að ofan, þá er það spá fyrirtækisins að verðbólga næstu 12 mánuði verði innan við 5%, það er greinilega hrætt við niðurstöðu Hæstaréttar og, þó dómur Hæstaréttar falli fyrirtækinu í hag, að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast verulega. Út frá þessum þáttum, þá tel ég varhugavert fyrir lántaka að taka þessu tilboði. Ástæðurnar eru væntanlegur dómur Hæstaréttar, en þó hann falli lántökum í óhag, þá mun frumvarp félagsmálaráðherra setja undir þann leka; greiðslubyrðin er ekkert að breytast; og loks að aftur er SP-fjármögnun að láta viðskiptivini sína taka þá gengisáhættu, sem eðlilegt er að fjármálafyrirtækið taki. Fjármálafyrirtæki hafa möguleika til að verja sig gegn gengissveiflum, en almennir lántakar geta það ekki. Þess vegna er ólöglegt að tengja fjárskuldbindingu í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla!