Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.3.2010. Efnisflokkur: Hagsmunabarátta
Ég brá mér frá í nokkra daga til að hlaða rafhlöðurnar. Ótrúleg tilbreyting. Að komast í umhverfi sem er laust við allt þetta sem hefur hvílt sem mara á þjóðlífinu síðustu 18 mánuði, ef ekki lengur. Staðurinn skiptir kannski ekki megin málin, en ég fór til Boston. Fór í verslanir og áttaði mig á því að tekjurnar geta dugað fyrir nauðþurftum. Heimsótti Harvard og MIT og áttaði á mig hvað þessi háskólasamfélög eru eins og eyjur án tenginga við umheiminn. Um leið og maður komst inn fyrir mörk háskólasvæðanna, þá var eins og eitthvað breyttist. Þarna var ekki raunveruleikinn heldur einhver sýndarveruleiki áhyggjuleysis og akademískrar umræðu.
En það var ekki ástandið í Boston sem ég ætlaði að lýsa, heldur sjokkið við að koma aftur heim. Ástandið hér er svakalegt. Þá á ég við andlegt ástand þjóðarinnar. Það er einhver drungi sem liggur yfir öllu. Nærtækast er að líkja þessu við að fara inn í herbergi, þar sem virkilega slæm orka, loftleysi eða eitthvað þess háttar er til staðar. Hafi maður verið inni í herberginu í langan tíma, þá finnur maður ekki fyrir þessu, en svo fer maður út og kemur til baka og skilur ekki hvernig maður gat setið þarna inni klukkutímunum saman. Þannig er Ísland í dag. Orkuhjúpur landsins er hlaðinn þunglyndi, vonleysi, depurð, úrræðaleysi.
Ég er ekki að furða mig á ástandinu. Ég skil það mæta vel. Á hverjum degi hringir í mig fólk, sem er að leita ráða eða segja mér sögu sína. Og sögurnar versna með hverjum deginum. Örvæntingin er að ná tökum á sífellt fleiri einstaklingum. Harka fjármálafyrirtækjanna er sífellt að aukast. Eingöngu þeir, sem eru svo "heppnir" að vera með öll sín viðskipti á einum stað, virðast fá úrlausn sinna mála. Sértæk skuldaaðlögun er útfærð á mismunandi vegu hjá hverjum og einum banka og hafi beiðni um sértæka skuldaaðlögun komið frá banka A, þá virðast allir hinir líta á það sem heilaga skyldu sína að hafna þátttöku. Fjármögnunarfyrirtækin virða að vettugi samkomulag sem gert hefur verið og hirða bíla af fólki að næturlagi, þegar fólk kemur engri vörn við. Hvert spillingarmálið kemur upp á fætur öðru og málsvörn hinna spilltu er að einhver annar hafi borið meiri ábyrgð. Er það nema von að þunglyndi ríði hér húsum?
Ég tilheyri fámennum hópi fólks, sem hefur reynt sitt besta til að berjast fyrir réttlæti og sanngirni. Þá er ég að tala um stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna. Í tæpa 18 mánuði hefur kjarninn úr þessum hópi staðið vaktina og unnið baki brotnu. Þar af síðustu 14 undir merkjum HH. Þetta tekur alveg gríðarlega á. Vissulega höfum við áorkað miklu, en það hefur verið á kostnað tekjuöflunar og ekki síst fjölskyldunnar. Við höfum ekki næg fjárráð til að standa uppi í hárinu á þremur öflugum bönkum og ótal minni fjármálafyrirtækjum. Við höfum ekki tíma til að sækja alla þá fundi þar sem nærveru okkar er óskað. Við höfum ekki orku til að sinna öllum erindum sem okkur eru send. Þetta er jú allt sjálfboðavinna.
Ég tek það skýrt fram, að samtökin hafa fengið mikinn stuðning og góðan hljómgrunn meðal almennings. Hvatningarpóstar sem okkur berast eru margir alveg frábærir. Slíkir póstar hafa oft fleytt mér yfir erfiða hjalla og ég býst við að það eigi líka við um ýmsa félaga mína í stjórn HH. Er ég þakklátur fyrir slíkan stuðning. Vissulega hefur líka verið hreytt í okkur ónotum, en það er sjaldgæft. Það er samt eitt sem ég hef ekki verið nægilega sáttur við. Það er hve hægt gengur að fjölga félagsmönnum í samtökunum. Þegar þetta er skrifað eru félagsmenn tæplega 3.500. Það er vissulega yfir 1% þjóðarinnar, en þegar um 30.000 heimili eru í alvarlegum vanda og þar af hátt í 10.000 í mjög alvarlegum vanda, þá hefði verið gott að sjá fleiri félagsmenn. Setji einhver félagsgjöld fyrir sig, þá er ekki skylda að greiða þau og þau eru ekki forsenda fyrir þátttöku í starfinu. Vil ég því hvetja alla, sem ekki eru þegar í samtökunum, að ganga í þau með því að fara inn á www.heimilin.is og styrkja þau því í baráttu sinni fyrir réttlæti og sanngirni.