Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.6.2010. Efnisflokkur: Minningargrein
Mig langar að minnast góðs manns, Grétars Vilmundarsonar, fyrrum félaga míns hjá Gróttu og fyrirmyndar í mörgu sem ég og fleiri strákar á mínum aldri gerðum varðandi íþróttaferli okkar. Genginn er einn þeirra sem ég tók mér til fyrirmyndar á mínum yngri árum.
Ég man líklega fyrst eftir Grétari í kringum 1970, þá var hann í sigursælu liði Gróttu á Reykjanesmóti. Með honum í liði voru stjörnur (í augum okkar strákanna) eins og Árni Indriðason, Halldór Kristjánsson, Þór Ottesen og Magnús Sigurðsson svo fáeinir séu nefndir. Þessi hópur fór með lið Gróttu upp í 1. deild í fyrsta sinn sem það gerðist.
Grétar skar sig úr þessum hópi á ýmsa vegu, en þó mest þar sem hann var svo mikill félagi okkar strákanna. Hann var alltaf til í að ræða við okkur og oftar en ekki fólst alls konar grín, glens og gaman í því. Annað sem skar sig úr var að hann var virkur handboltadómari og var því heilu og hálfu helgarnar upp í íþróttahúsi að dæma leikina okkar. Þar var hann sífellt að leiðbeina krökkunum um hvað væri rétt og rangt og ef einhver gerði ótrúlega vitleysu, þá var Grétar fyrstu manna til að hughreyst viðkomandi eða sá spaugilegu hliðina á skoti upp í stúku, sendingu sem fór fram á gang og fleira þess háttar. Rataði boltinn óvart til hans, gat hann átt það til að taka eitt körfuskot um leið og hann skilaði boltanum til þess sem átti að fá hann.
Það var fyrir tilstilli Grétars sem ég gerðist handboltadómari og þó dómgæsla sé á margan hátt sjálfspíningarhvöt, þá sá ég ekki eftir þeirri ákvörðun. Um tíma dæmi ég með Grétari og var það mjög gott, þar sem hann var alltaf mjög réttsýnn dómari.
Handboltaferill Grétars var farsæll. Ég þekki ekki hvernig hann var áður en hann kom í Gróttu, en hann batt tryggð við félagið meðan það var hægt, en fór að mig minnir tvö ár í Þrótt, þegar verulega var farið að halla undan fæti hjá meistaraflokki Gróttu. Áður en kom að því náði ég að leika nokkur tímabil með Grétari og af gömlu körlunum (eins og þeir voru orðnir þá) í meistaraflokki. Var það mikil upplifun, en þó var nú farið að falla á ljómann sem var á þeim 7 árum fyrr. Óhætt er að segja að engum var fært að herma eftir skotstíl Grétars og áttu þeir svilar, hann og Halldór, það sameiginlegt. Ég veit ekki hvað hún Guðrún Öfjörð tengdamóðir þeirra gaf þeim, en eitthvað var það. Annar valhoppaði og hinn horfði upp í stúku, en báðir hlóðu þeir inn mörkunum. Hitt veit ég að hún Guðrún var ákafleg stolt af þeim strákunum og ræddum við það ófáum sinnum við pressuna í Prjónastofunni Iðunni, þar sem hún vann í fyrirtæki fjölskyldu minnar.
Ég hélt áfram samskiptum við Grétar í gegn um starf mitt sem formaður handknattleiksdeildar Gróttu á árunum 1980 - 83 og síðan dómgæsluna þar til að Grétar lagði flautuna á hilluna, m.a. af heilsufarsástæðum. Síðustu árin voru samskiptin lítil, eins og verða vill, en ekki fór þó á milli mála að heilsu hans fór hrakandi og húmorinn fjaraði út.
Genginn er góður maður sem hjálpaði okkur strákunum mikið. Inga og dætur ég votta ykkur samúð mína. Grétari þakka ég fyrir mörg góð ár í boltanum.
Marinó G. Njálsson