Sannleikanum hagrætt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.8.2010.  Efnisflokkur:  Gengistrygging

Í síðustu færslu minni (Æi, Gylfi, hættu að hagræða sannleikanum) sýni ég nokkur dæmi um það hvernig Gylfi leggur sig fram við að hagræða sannleikanum.  Í umræðunni á Alþingi 1. júlí, 2009 var Gylfi spurður út í lögmæti myntkörfulána.  Hann vissi nákvæmlega hvað hann var spurður um og þó hann hafi notað orðin "lán í erlendri mynt", þá getur hann ekki haldi því fram að með því hafi hann ekki átt við myntkörfulánin sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um.  Hafi hann ekki átt við þau lán, þá var svar hans gróf móðgun við þingheim.

Sá útúrsnúningur ráðuneytisins, að gengistryggð lán séu ekki það sama og myntkörfulán, sýnir rökþrot ráðuneytismanna.  Orðavalið "gengistryggð lán" var almennt ekki notað af stjórnsýslunni, þ.e. ráðherrum og embættismönnum, fyrr en langt var liðið á 2009 eða hvort það var nokkuð fyrr en á þessu ári.  Hagsmunasamtök heimilanna þurftu ítrekað að leiðrétta tungutak viðmælenda sinna í viðræðum og á fundum.  Menn þrjóskuðust við eins og rjúpa við staur að nota "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkörfulán" um það sem sýnt hafði verið fram á af samtökunum, Birni Þorra Viktorssyni og fleirum, að væru ólöglega gengistryggð lán samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Það verður því að skoða orðavalið "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkröfulán" með þeim gleraugum að átt hafi verið við það lánaform sem við í dag köllum "gengistryggð lán".

Það hefur aldrei verið neinn ágreiningur uppi um að erlend lán eða að lán í erlendri mynt væru ólögleg meðan gengið hefur verið þannig frá þeim að allt við lánin sé skráð í erlendri mynt.  Það er t.d. skoðun margra (þ. á m. HH), að "erlend lán" sé samningur, þar sem lánveitandinn sé erlent fjármálafyrirtæki eða erlent dótturfyrirtæki eða útibú íslensks fjármálafyrirtækis.  "Lán í erlendri mynt" sé aftur íslenskt lán, þar sem sótt var um upphæð í erlendri mynt, höfuðstóll lánsins er gefinn upp í erlendri mynt, lánið var greitt út í erlendri mynt inn á gjaldeyrisreikning lántakans og greiðslur fara fram í erlendri mynt.  Varðandi þessi lán er almennt gefið út tryggingabréf og því þinglýst á veðið, en ekki skuldabréfinu sjálfu.  Um þetta hefur ALDREI verið ágreiningur og því engin ástæða fyrir lögfræðinga viðskiptaráðuneytisins eða ráðherrann sjálfan að svar óumbeðið spurningum um slík lán.  Ágreiningurinn var um lán þar sem sótt var um lán í íslenskum krónum með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. svo kölluð gengistryggð lán.

Mér finnst það sorglegt, að starfsmenn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hafi verið settir í að bjarga ráðherranum út úr klemmu, sem hann kom sér í.  Gott og vel, Gylfi hugsanlega misskildi eitthvað eða að starfsmenn ráðuneytisins misskildu hlutina.  Viðurkennið þið það þá og verið menn að meiru.  Hafi Gylfi misskilið eða ruglast, þá er allt í lagi að segja það, en að vera sífellt að snúa og hagræða sannleikanum er ekki til að öðlast traust.

Ég held að Gylfi sé um margt mjög hæfur viðskiptaráðherra og sé a.m.k. ekki í fljótu bragði að margir í þingliði ríkisstjórnarinnar séu betri, þó ég eigi mér vissulega minn kandídat í stöðuna.  Enginn af þeim sem hafa verið framarlega í orðræðunni utan frá, hafa að mínu mati sýnt að þeir séu hæfari.  Mistök ráðherrans hafa helst verið að breiða yfir eldri mistök í staðinn fyrir að viðurkenna að honum hafi orðið á í messunni.  Það verður öllum á.  Þetta hefur undið upp á sig og er sífellt að verða neyðarlegra.  Nú er kominn tími til að Gylfi og ráðuneytið skoði hvað fór úrskeiðis í svörum ráðherra, hvað hann átti við hverju sinni og ef það var annan en spurt var um, hvert var þá hið raunverulega svar.


Færslan var skrifuð við fréttina: Ranglega vitnað í ræðu ráðherra

Share