Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.2.2009.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sannað tilverurétt sinn. Á þeim stutta tíma frá því að samtökin voru stofnuð hafa þau náð augum og eyrum ráðamanna, fjölmiðla og almennings. Tillögur samtakanna hafa vakið athygli og fengið hljómgrunn vegna þess að þar eru lagðar fram almennar og nauðsynlegar aðgerðir til endurreisnar heimilum landsins.
Stefnumálin:
Almennar leiðréttingar á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna.
Afnám verðtryggingar.
Jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántakenda.
Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði.
Samfélagslega ábyrgð lánveitenda.
eru sjálfsagðar kröfur um jafnrétti. Þessar kröfur útiloka ekki aðrar kröfur eða ganga á rétt annarra. Það er bara verið að fara fram á að heimilin séu varin.
Við, hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, gerum okkur grein fyrir að kröfur okkar kosta sitt. En hver er hin hliðin? Mig langar raunar ekkert að tala um hina hliðina nema óbeint. Ég vil einblína á ávinninginn af því að þessum kröfum verði mætt. Ávinningurinn er að mínum mati að lágmarki eftirfarandi:
Skuldir heimilanna lækka og greiðslubyrði lána minnkar
Fleiri eiga kost á því að halda heimilum sínum
Heimilin hafa meiri pening til að standa í skilum með aðrar skuldbindingar sínar
Meiri peningur fer í neyslu sem fer þá inn í hagkerfið
Veltuskattar til ríkisins dragast ekki eins mikið saman og annars hefði orðið.
Meiri tekjur ríkisins þýðir að ríkissjóður þarf að skera minna niður, en annars, eða á meiri möguleika á að standa undir vaxtagjöldum
Fyrirtækin fá meiri veltu, sem eykur líkur á því að þau lifi af.
Fyrirtækin hafa meiri pening til að greiða laun og önnur útgjöld með tilheyrandi ruðningsáhrifum. M.a. munu þau eiga auðveldara með að greiða skatta til ríkisins og mótframlag launagreiðanda til lífeyrissjóðanna.
Færri þurfa að fara á atvinnuleysisbætur
Mér finnst þetta vera alveg nóg til þess að menn íhugi þessa leið af fullri alvöru.
Ég vil hvetja alla, sem áhuga hafa og ekki eru félagar í samtökunum, að skrá sig í þau á www.heimilin.is (hægt er að fara beint í skráningu hér). Þá vil ég vekja athygli á því að ég verð ræðumaður á opnum fundi Radda fólksins á Austurvelli næst komandi laugardag. Umfjöllunarefni mitt verður hagmunir heimilanna og fleira því tengt.
Loks auglýsi ég eftir stefnumótun og aðgerðum frá stjórnvöldum, sem byggja á tillögum frá hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, fjármálafyrirtækjum, framleiðslufyrirtækjum, hagsmunahópum og almenningi, þar sem sett er fram framtíðarsýn um uppbyggingu landsins. Ég hef ítrekað stungið upp á að settir verði á fót aðgerðahópa á vegum stjórnvalda um eftirfarandi málefni:
Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
Gengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
(Þessi listi var fyrst birtur 6. nóvember 2008.)
Vissulega hefur eitthvað verið gert, en betur má ef duga skal. Annars förum við leið fjárhagslegs og andlegs gjaldþrots.