Game over - Gefa þarf upp á nýtt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.2.2009.

Það stefnir í uppgjör í Monopoly spilinu sem fjármálastofnanir austan hafs og vestan hafa verið að spila undanfarin ár.  Í fréttum dagsins er spáð falli ríkja víða um Evrópu og nú hefur pestin breiðst til Persaflóa.  Í Japan var á síðasta ársfjórðungi meiri samdráttur en dæmi eru um frá því á stríðsárunum.  Spilaborg blekkinganna er að falla.  Fjárskuldbindingar án baklands, eignir án innistæðu.  Það er kominn tími til að gefa upp á nýtt.

Kannski er rússneska leiðin sú eina færa, en þar í landi fékk fólk sent afsal að íbúðarhúsnæði sínu við fall Sovétríkjanna.  Allir byrjuðu með veðlausar eignir.  Menn eru víst að íhuga slíkt í landi fjármagnsins enda átta menn sig á því að stærsta píramídasvindl sögunnar hefur átt sér stað innan fjármálafyrirtækja landsins.  Madcoff var ekkert óheiðarlegri en aðrir.  Hver er munurinn að velta peningunum eins og hann gerði eða láta menn hafa afleiðupappíra í hendur sem eiga að gefa sífellt meira af sér en eru í reynd innistæðulausir.  Þetta voru ekkert annað en keðjubréf, sem tryggðu þeim fyrstu í keðjunni gríðarlegar tekjur, en þeir sem aftar eru áttu að taka skellinn. 516.000 milljarða dollara keðjubréf í heimi með 56.000 milljarða dollara heimsframleiðslu.

Eina lausnin er að ríkisstjórnir leggi hald á allt tiltækt fjármagn, hver í sínu landi, og gefi upp á nýtt.  Peningarnir eru til.  Þeir fóru í umferð og þá má nálgast, ef við vitum bara hvar þeir eru geymdir.  Þeir gufuðu ekki bara upp.  En eignir manna, hvort heldur í skuldabréfum, hlutabréfum, afleiðum, tryggingasamningum eða hvað þetta nú allt heitir, eru orðnar að engu.

Það verður að ýta á reset hnappinn og ræsa hagkerfi heimsins upp á nýtt.  Hugsanlega væri hægt að ná í gamalt afrit (backup) eða bakka aftur í fyrri stöðu sem virkaði (recover from last stable setup) eins og boðið er upp á í Windows.  En ég er ekki viss um að það borgi sig.  Ég held að það verði fljótlegra að gefa öllum upp stóran hluta skulda sinna og leysa svo önnur mál í sameiningu.  T.d. má færa allar skuldir við fjármálastofnanir niður þannig að eftir standi upphæð innlán plús 10%.  Allt umfram það yrði afskrifað.  Fjármálastofnanir afskrifuðu allar skuldir sín á milli. Þetta er hvort eð er allt meira og minna verðlaust, tapað, glatað.  Þetta var hvort eð er greitt með sýndarpeningum sem höfðu engin verðmæti að baki sér. Hvernig er hægt að setja 20% verðbætur ofan á lán, þegar aukning verðmætasköpunar, þ.e. hagvöxtur, er neikvæð?  Eða hvernig er hægt að rukka 12% nafnvexti í þjóðfélagi, þar sem búið er að færa stærstan hluta allrar framleiðslu úr landi til Kína, eins og er í Bandaríkjunum?  Þetta gengur ekki upp. 

Öll verðmætaaukning í heiminum dugar ekki til að greiða vexti af öllum þeim lánum sem hafa verið tekin.  Þess vegna er kerfið að hrynja.  Tekjur heimila og fyrirtækja standa ekki lengur undir fjármagnskostnaði.  Það á ekki bara við hér.  Þetta "byrjaði" jú allt með undirmálslánunum í Bandaríkjunum.  Málið er að undirmálslánin virka nákvæmlega eins og verðtryggð og gengistryggð lán á Íslandi. Dag einn hækka vaxtagreiðslur af lánunum upp fyrir greiðslugetu lántakandans og þá byrja dómínókubbarnir að falla einn af öðrum þar til hver einn og einasti er fallinn.  Game over.


Dubai líkt við Ísland