Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.2.2009.
Ég get ekki annað en furðað mig á þessum sögum sem flæða yfir okkur um uppgjör bílalánasamninga. Ef bílum er skilað, þá er verð bílsins fyrst lækkað í samræmi við markaðsverð og síðan er það lækkað vegna viðgerðarkostnaðar, ástandsskoðunar, þrifa, affalla, sölulauna, kostnað við uppgjör og geymslukostnað. Hugmyndaflugi bílalánafyrirtækjanna er greinilega engin takmörk sett.
Skoðum aðeins þessa frádrættarliði:
Markaðsverð: Það er sjálfsagt og eðlilegt að afföll verði á verði bifreiðarinnar og það ætti að endurspegla ástand bifreiðarinnar. Besta mál
Viðgerðarkostnaður: Bílar eru í ábyrgð í allt að 3 ár og sumir jafnvel lengur. Hafi bíllinn ekki lent í tjóni, þá á mest allur, ef ekki allur, viðgerðarkostnaður að falla undir ábyrgð. Sé rukkað fyrir slíkan kostnað er í mínum huga verið að svína á fyrri eiganda. Einnig er gert ráð fyrir í markaðsverði bifreiðarinnar að hann hafi verið notaður. Allt annað er ósanngjarnir viðskiptahættir og samningar því hugsanlega riftanlegir án þess að lánþegi beri nokkuð tjón af. Rukkun fyrir þennan lið er því í mínum huga ekkert annað en svik.
Ástandsskoðun: Almenna reglan í bílaviðskiptum er að sá sem biður um ástandsskoðunina greiði fyrir hana. Ef ekki er getið um það í samningnum að lántaki greiði, þá á þessi kostnaður að falla á lánafyrirtækið.
Þrif: Sé bíll gerður upptækur og eiganda ekki gefið færi á að þrífa bílinn, þá getur lánafyrirtækið varla staðið á því að rukka fyrir þrif.
Afföll: Þessi liður er djók. Það er búið að taka tillit til affalla í markaðsverði. Hvernig er hægt að reikna þau aftur inn í þessum lið?
Sölulaun: Annar liður sem er gjörsamlega óskiljanlegur. Bifreiðin er tekinn af eigandanum vegna vanskila. Það var ekki verið að kaupa hann eða selja. Hann var ekki boðinn upp. Hér er í mínum huga annar liður sem er ekkert annað en tilraun til að búa til kostnað.
Kostnaður við uppgjör: Hvernig getur kostnaður við uppgjör numið tugum þúsunda, þegar það er bara prentað út úr tölvu af starfsmanni sem er með 2.500 kr. á tímann. Það er ljóst að bílalánafyrirtækin kannast ekki við nýleg innheimtulög. Aðeins má rukka fyrir sannanlega útlagðan kostnað.
Geymslukostnaður: Hugsanlega sanngjarn kostnaður, ef hann er raunverulegur.
Mér sýnist margt í furðuheimum bílalána benda til þess að bílana megi ekki nota. Þá eigi að geyma undir dúk inni í bílskúr sem enginn gengur um.