Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.2.2009.
Hækkun höfuðstóls verðtryggðra og gengistryggðra lána á undanförnum mánuðum vekur upp spurningar um réttmæti slíkra samninga. Mjög margir skuldarar standa frammi fyrir því að eigið fé húseigna þeirra hefur ekki bara gufað upp, heldur er andvirði verð- eða gengistryggðs höfuðstóls orðið umtalsvert hærra en markaðsverðmæti húseignarinnar. Aðrir standa í þeim sporum að hafa tekið yfirdráttarlán hjá banka, meðan yfirdráttarvextir voru hóflegir (um 12%), en sitja nú uppi með það að greiða 25-27,5% yfirdráttarvextir. Í flestum tilfellum hefur skuldarinn það eitt til sakar unnið að skulda. Hann er hvorki í vanskilum né stendur í bruðli. Hann gerði raunhæfa greiðsluáætlun í samræmi við ástand efnahagsmála og greiðslugetu sína fyrir 12 - 24 mánuðum. Það er því ekkert hægt að klaga sérstaklega upp á lántakandann annað en að viðkomandi er með lán sem þarf að greiða.
Nú vill svo til að í nokkrum lögum eru ákvæði um ógildingu samninga. Spurningin er hvort hægt sé að beita slíkum ákvæðum í tilfelli sem þessu. Hér eru tvö dæmi sem gætu átt við:
1. Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 með síðari breytingum: Í 36 gr. laganna segir:
36. gr. [Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c].1) Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.]2)
1)L. 14/1995, 1. gr. 2)L. 11/1986, 6. gr.
[36. gr. a. Ákvæði 36. gr. a–d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Ákvæðin gilda einnig um samninga milli neytenda sem atvinnurekandi stendur að fyrir annan aðilanna.
Á atvinnurekandanum hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli ekki undir 1. mgr.]1)
1)L. 14/1995, 2. gr.
[36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.]1)
1)L. 14/1995, 4. gr.
2. Lög um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir nr. 46/2005 segir í grein 9:
9. gr. Góðir viðskiptahættir.
Ákvæði í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun er varðar verðmat fjárhagslegrar tryggingar, verðmat fjárskuldbindinga og fullnustu fjárskuldbindinga má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Hér togast á nokkur sjónarmið, en það sem skiptir máli, er að neytandinn (lántakandinn í því tilfelli sem hér um ræðir) skal ekki þurfa að uppfylla skyldur í samningi sem er ekki í samræmi við væntingar hans og lánveitanda í upphafi. Því miður eru þessar væntingar sjaldnast skjalfestar, en greiningadeildir bankanna voru mjög duglegar að koma með efnahagsspár, einnig birtust slíkar spár frá fjármálaráðuneytinu og jafnvel Seðlabanka Íslands. Allir þessir aðilar settu fram væntingar um stöðugleika, þannig að lántakendur gátu búist við því að greiðsluáætlanir þeirra myndu standast með takmörkuðum frávikum. Lánveitendur gengu líka út frá vissum forsendum um upphæð þeirra greiðslna, sem þeir gátu vænst af lánunum, og breytingar á höfuðstól lánanna. Ég efast um að það hafi verið ætlun stóru bankanna, að stefna öllu í voða hérna, en þeir gerðu það. Það sem meira er, hægt er að færa góð og gild rök fyrir því að þeirra eina von til að lifa af lausafjárkreppuna, hafi verið að fella krónuna. Með því vannst tvennt: höfuðstóll og afborganir gengistryggðra lána hækkuðu mikið og verðbætur lána jukust mikið vegna þeirrar verðbólgu sem kom í kjölfar gengislækkunarinnar. Annar aðili lánasamningsins var því í ósanngjarnri stöðu til að hafa áhrif á greiðslubyrði lánasamningsins. Ég gæti alveg séð fyrir mér, að þetta væri fullnægjandi ástæða til að fá felld úr gildi ákvæði samningsins um verð- og gengistryggingar.
Nú væri fróðlegt að fá álit lögfræðinga á þessari pælingu minni.
Í athugasemd bætti ég svo við:
Svo má bæta við þetta eftirfarandi úr lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:
VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
Mér sýnist hugsanlega verið að segja þarna að verðtrygging við gengisvísitölu, sé hreinlega ekki heimil. Það er heimilt að miða við hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalan en ekki viðmið við gengi gjaldmiðla. Ég finn hvergi lagatilvísun í gengistryggð lán, þannig að spurningin er hvort allt sé leyft sem ekki er sérstaklega bannað eða allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft.
EE elle bætti svo við:
..það er frábært að þið getið kannski farið í prófmál. Fólk sem tók gengislán í júní/júlí, 07 hefur væntanlega farið langverst út úr gengislánunum þar sem ísl. kr. var fölskust/sterkust þá og hækkanirnar þ.a.l. hrikalegastar.
Önnur lög sem ég fann. Skrifa ekki upp öll orðin, heldur heitin og númerin. Þið finnið það.
Lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins:
11. kafli. 5. + 6. gr.
111. kafli. 9. gr.
Lög um fjármálafyrirtæki:
111. kafli. 19. gr.
Lög um neytendakaup:
1V. kafli. 15. gr. liður b + 16. gr. liðir a og b.
Lög um neytendalán:
11. kafli. 5., 6. og 15. gr.
111. kafli. 16. gr.
Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga:
111. kafli. 30. og 31. gr.
1V. kafli. 38. gr.