"Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum"

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.9.2009.

Þetta voru orð Þórólfs Matthíassonar í Kastljósinu áðan.  Hann var að setja ofan í við Tryggva Þór Herbertsson, þegar Tryggvi talaði um að skuldirnar myndu tikka á 15% vöxtum.  Þetta væru sko ekki raunvextir, þeir væru lægri.  Tryggvi brást við og sagði það alveg rétt og þá kom þetta kostulega andsvar Þórólfs "Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum".  Svei mér, ef það rigndi ekki upp í nefið á honum, þegar hann sagði þetta, svo hátt reigði hann hausinn.

Þórólfur, þegar þú mátt vera að því að koma niður úr fílabeinsturni hagfræðikenninganna, þá kemstu líklegast að því að vextir eru vextir hvaða nafni þeir heita.  Fyrir allan almenning, kannski ekki þá sem búa í fílabeinsturni háskólasamfélagsins, en fyrir okkur hin, þá er okkur nákvæmlega sama hvort vextirnir heita nafnvextir, raunvextir, vextir eða verðbætur.  Allt eru þetta útgjöld sem ráðast af óvægni á budduna.  Og við borgum líka vextina sem halda raunvöxtunum ofan verðbólgunnar.

Annars á ég ofsalega erfitt með að skilja Þórólf.  Hann virðist fastur í einhverjum hagfræðikenningum og gleyma alveg að tengja þær við raunveruleikann.  Nú setur hann fram tillögu um tekjutengingu afborgana húsnæðislána.  Þessi hugmynd er hugsanlega flott í útópíu hagfræðinnar, þar sem gert er ráð fyrir hagvexti, tekjuaukningu, kaupmáttaraukningu og síðan stöðugleika.  Tekjutengingar í íslensku samfélagi hafa alltaf orðið til að skapa óréttlæti vegna þeirra jaðaráhrifa sem kemur út úr tekjutengingunni.  Ef einstaklingur eykur tekjur sínar um 100.000 kr. með aukinni vinnu, þá fara 41% í skatta og lífeyrissjóðsiðgjald, 4% í námslán og síðan kannski 15% - 20% í afborganir lána (miðað við tillögu Þórólfs).  Við þetta bætist lækkun vaxtabóta og barnabóta og hugsanlega hátekjuskattur.  Eftir standa innan við þriðjungur af 100.000 krónunum.  Hvað gerir þá viðkomandi?  Hann leitar frekar eftir svörtum tekjum, vegna þess að þá heldur hann öllum 100 þúsund kallinum.

Í Kastljósinu í kvöld talaði Þórólfur einu sinni sem oftar um kostnaðinn af leiðréttingu lána heimilanna.  Honum er ótrúlega tíðrætt um þetta og fékk liðsmann í formi Jóns Steinssonar sem var með grein í Mogganum í dag.  Þeir tala um að leiðrétting núna kosti skattgreiðendur svo mikið.  Þetta er algjört bull.  Við höfum val.  Hægt er að fara í leiðréttinguna núna eða afskriftir síðar.  Ég hef skrifað grein um þetta, sem mun birtast í Morgunblaðinu á næstu dögum á sama stað og grein Jóns.  Þar færi ég rök fyrir því að líklegast er ódýrara að fara núna í leiðréttingar, heldur en að stefna stórum hluta þjóðarinnar í gjaldþrot.  Auk þess liggja fyrir því viðskiptaleg rök, lögfræðileg rök og siðferðileg rök.  En tvö þau síðari mælast náttúrulega ekki í útópískum hagfræðiformúlum Þórólfs Matthíassonar.  Með fullri virðingu fyrir hagfræðiformúlum, þá eru niðurstöður þeirra engu betri en tölurnar sem settar eru inn í þær.  Séu forsendurnar rangar, þá verða niðurstöðurnar bara bull.  Rubbish in, rubbish out.  Hafi eitthvað sannast undanfarin ár, þá er það nákvæmlega þetta.

(Ég mun birta greinina sem fór í Moggann um leið og hún verður birt þar.  Þó verður það talsvert lengri útgáfa.)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hér er tengill í Moggafærsluna, svo hægt sé að skoða umræðuna.