Útrás orðin að innrás

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.8.2009.

Íslenskir fjárfestar fóru, að dæmi forfeðra sinna, í víking til Stóra-Bretlands og meginlands Evrópu.  Innrásin, sem átti að enda með sterku fjárfestingaveldi víkinganna, hefur núna snúist upp í gagnsókn, enda sóttu menn á öllu liði sínu og skyldi engar varnir eftir hér á landi.  Þar sem sóknarliðið var heldur þunnskipað, þurfti ekki mikið til að rjúfa varnir þess og hrundi þá öll spilaborgin á þremur svörtum dögum í október.  Það sem meira var, heimalendurnar höfðu engar varnir og stóðu því eftir sem sviðin jörð.

Erlend innrásarlið undir stjórn mismunandi lénsherra hafa nú tekið sér stöðu á hverju horni í borgum og bæjum landsins.  Öll helstu fyrirtæki eru komin í eigu eða undir stjórn lénsherranna eða leppa á þeirra vegu.  Innrásarliðið heldur á framtíð landsins í höndum sér.

Til að bjarga sjálfum sér, reyna margir af útrásarvíkingunum að semja við einstaka lénsherra svo þeir geti haldið einhverjum ítökum í þjóðfélaginu.  Refsingin fyrir útrásartilraunina er öðrum grimm.  Þeir missa allt sitt til útlendinganna.  Verst er þó ævarandi útskúfunin sem þeir munu hljóta úr íslensku samfélagi.  Farið hefur betra fé.

En eins og í öllum stríðum er tjón almennings mest.  Heimilin þeirra hafa verið skilin eftir sem rústir einar.  Skuldaklafarnir eru ekki bara að sliga almenna launamenn, öryrkja og aldraða, heldur einnig þá sem einu sinni töldust ríflega bjargálnamenn.  Sviðna jörð ber að líta alls staðar.

Í ljós hefur komið að útrásarliðið hafði gengið um íslenskt samfélag sem verstu ribbaldar og rónar.  Farið ránshendi um sjóði landsmanna og ekki greitt reikninga sína. Nú þarf þjóðin að taka til eftir þá og greiða erlendu lénsherrunum himinháar skaðabætur.  Glæstustu eignir og stolt þjóðarinnar hafa verið tekin herfangi af sveitum lénsherranna.  Það sem áður var í sameiginlegri eigu landsmanna hefur verið fært í hendur útlendinga og hafi það ekki átt sér stað ennþá, þá er ekki langt að bíða að svo verði.

Sagan ætti að hafa kennt mönnum, að enginn erlendur her hefur lagt Stóra-Bretland.  Hvað þá fámennar vígasveitir sveitalubba frá lítilli eyju í ballarhafi.  Það er bara á færi stórra, voldugra aðila að nýta sér Microsoft útgáfuna á orðatiltækinu "if you can't beat them, join them", sem Microsoft breytti í "if you can´t beat them, buy them".  Íslensku sveitalubbarnir voru hvorki stórir né voldugir og bakland þeirra var veikt, þrátt fyrir að hafa keypt sér banka til að auðvelda aðgang að fjármagni.  Nei, það kann ekki góðri lukku að stýra, að troða voldugum aðilum um tær.  Hvað þá þegar það er gert með unggæðings-"ég veit allt miklu betur"-hroka. Stundum er betra að hlusta á sér reyndari menn og læra af þeim.  Kannski eru fyrirtæki þeirra jafn öflug og gömul og raun ber vitni, vegna þess að þeirra aðferð var sú rétta.  Góðir hlutir gerast hægt.

Framundan er ný sjálfstæðisbarátta.  Hún verður ekki ólík þeirri síðustu.  Þá var erlent yfirvald, þá voru öll helstu fyrirtæki landsins í höndum útlendinga, þá átti almenningur vart til hnífs og skeiðar og alls ekki húsnæðið sitt, þá sendum við afbrotamenn á Brimarhólm.  Merkilegt hvað hlutirnir eiga það til að endurtaka sig. 

Yfir okkur hangir að samþykkja afarkosti erlendra lénsherra í formi Icesave og skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Hvorutveggja munu kalla auknar þrengingar yfir lýð og land.  Er þatta það sem við viljum?  Eru afarkostirnir óumflýjanlegir eða eigum við þann kost að standa upp og segja eins og Jón Sigurðsson á Þjóðfundinum forðum:  Vér mótmælum! 

Spurningin er hvort það muni taka 67 ár að verða fullvalda þjóð (Þjóðfundurinn var 1851 og Ísland varð fullvalda 1918) og önnur 26 til viðbótar til að öðlast sjálfstæði. Eða mun okkur bera gæfu til að hrinda hinni erlendu innrás af okkur áður en núverandi kynslóð er gengin á vit feðranna.