Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.4.2009.
Yfirlýsing Hagsmunasamtaka heimilanna er send út í tilefni einhliða samkomulags lánveitenda um það hvaða kjör eigi að bjóða lántakendum. Einhvers staðar í heiminum væri talað um samkeppnishamlandi samráð, en hér á landi er látið svo líta út að verið sé að gera lántakendum mikinn greiða. Í yfirlýsingu samtakanna, sem ég sá um að gera tilbúna til birtingar, er bent á að þó sumt af hugmyndum lánveitenda séu góðra gjalda vert, þá er tímasetningin röng. Íbúðalánasjóður bauð alls konar leiðir fyrir lántakendur síðast liðið sumar. Hefðu aðrir lánveitendur húsnæðislána boðið þá upp á sömu úrlausnir, þá væru mörg heimili í mun betri stöðu í dag en þau eru. Þjóðfélagið væri í betri stöðu.
Ég skil ekki af hverju það hefur tekið rúmlega 6 mánuði að koma fram með þessar tillögur og ég skil ekki af hverju lántakendum var ekki boðið til þeirra viðræðna. Ég veit að talsmaður neytenda sendi inn hugmyndir til félagsmálaráðherra fyrri hluta október mánaðar! Ef þetta er dæmi um skilvirkni stjórnsýslunnar, þá skil ég vel að þjóðin sé í þessum vanda. Stofnuð hafa verið samtök sem bera hagsmuni heimilanna fyrir brjósti. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon nefndu það á sínum fyrsta blaðamannafundi að haft yrði samráð við samtökin. Við fengum vissulega fulltrúa inn í eina undirnefnda Velferðarvaktarinnar, en það hefur greinilega gleymst að láta Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, fá niðurstöður þeirrar vinnu. Eða er drottnunarvald fjármálafyrirtækjanna ennþá það mikið, að þau eru einráð í því sem gert er.
Mig langar að benda á eftirfarandi texta úr yfirlýsingunni:
Minna má á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin snerist í miklu mæli um að vísa lántakendum í áhættusamar lánveitingar í formi gengistryggðra lána á þeirri forsendu að gengið væri stöðugt. Jafnvel var vísað í hagspár greiningadeilda þessara sömu banka sem ekki bara höfðu birt kolrangar spár, heldur einnig spár sem gátu ekki staðist í ljósi vitneskju sem síðar hefur komið fram. Ekki er hægt að túlka þessar spár í dag á annan hátt en afbökun á staðreyndum eða blekkingar. Sem afleiðing af því stóðust verðbólguforsendur við lántöku ekki. Þetta var allt vegna þess að bankarnir, eigendur þeirra og stjórnendur höfðu, viljandi eða þvingaðir, tekið stöðu gegn krónunni og stuðluðu með því að hækkun höfuðstóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.
Ég er einn af þeim sem tók meðvitaða áhættu um að taka gengistryggt lán. Inn í mitt áhættumat tók ég þær spár sem greiningadeildir bankanna höfðu komið með um verðbólguþróun og gengisþróun. Ég reiknaði það út (og held raunar að það eigi ennþá eftir að standast) að öll hækkun á gengi gjaldmiðla eigi á einum eða öðrum tímapunkti eftir að vera étin upp af verðbólgu. Samanburður minn snerist því um það að vextir á gengistryggðu láni væru lægri en verðtryggðir vextir og að verðbætur sem leggjast á höfuðstól verðtryggðra lána hyrfu ekki meðan höfuðstóll gengistryggðra lána sveiflaðist með gengi. Ég gekk út frá því (með tilvísun í spár greiningadeildanna) að gengisvísitalan, sem á þeim tíma var um 122, væri ofmetin og gengisvísitalan í kringum 128 væri nær lagi. Ég taldi mig geta þolað að gengisvísitalan gæti farið í 135, en þá væri samt farið að reyna á.
Það sem ég vissi ekki var að greiningadeildirnar voru að birta falskar spár. Þær höfðu (eða áttu að hafa) á þessum tíma (þ.e. frá haustinu 2006 fram á sumar 2007) upplýsingar sem bentu til þess að mikil hætta væri á að gengi krónunnar gæti lækkað verulega. Það sem meira var að síðla árs 2007 og á fyrstu mánuðum 2008, þá héldu greiningadeildirnar áfram að birta spár sem gátu ekki verið annað en gegn betri vitund. Jafnvel eftir fall krónunnar í mars í fyrra héldu greiningadeildirnar áfram að spá tiltölulega sterku gengi. Mér dettur ekki í hug, að greiningadeildirnar hafi ekki haft nægilega klára einstaklinga hjá sér til að geta lesið í þá þróun sem átti sér stað. Eina niðurstaða mín er, að spár voru vísvitandi rangfærðar til að fegra myndina. Hafi það ekki verið gert, þá erum við að tala um algjöra vanhæfni hjá starfsmönnum deildanna. Nú spyr ég bara hvort var í gangi: Algjör vanhæfni eða gefnar voru út falsaðar spár? Einn möguleiki er til staðar í viðbót og það er afneitun manna hafi verið svo sterk. Þetta gæti bara ekki verið að gerast. Nú afneitun er eitt form af vanhæfni, þannig að það fer saman.
Það er sama hvernig ég lít á þetta, greiningadeildir bankanna bökkuðu uppi þær blekkingar sem voru í gangi. Þær voru ekki óháðar og þeim var ekki treystandi. Þær voru blekkingadeildir, ekki greiningadeildir.