Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.11.2009.
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að gera út lið starfsmanna, sem hafa verið ráðnir án auglýsinga, til að sannfæra þjóðina um, að heimilin verði að greiða til baka að fullu allar kröfur bankanna ellegar fara í sértæka skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun eða gjaldþrot. Yngvi Örn Kristinsson og Kristrún Heimisdóttir hafa verið sérlegir sendiboðar ráðherra. Bæði hafa þau hamrað á því að heimilin verði að borga nema kröfur séu sannanlega tapaðar. Bæði hafa haldið því fram að lækkun á sannvirði lánasafnanna, sem kom fram í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé ekki peningur í hendi sem hægt sé að nota í færa niður skuldir heimilanna. Áhugaverðast af því, sem Yngvi Örn hefur sagt (í hádegisfréttum Bylgjunnar 40 prósent af skuldum heimilanna voru skildar eftir í gömlu bönkunum), er að 40% af skuldum heimilanna hafi verið skyldar eftir í gömlu bönkunum. Einnig er hún einkennileg þessi mantra tímabundnu starfsmannanna, að vegna þess að "staðan sé viðunandi", þá eigi fólk að sætta sig við að greiða óreiðureikning bankanna.
Það er satt, að lækkun á sannvirði lánasafna heimilanna hjá fjármálafyrirtækjum er ekki peningur í hendi, en það á líka við um lækkun á sannvirði lánasafna fyrirtækja og ekki eru neinar vöfflur á mönnum að afskrifa lán þeirra í stórum stíl án þess að þau þurfi að fara út í stórvægilega eignasölu. Ég sé ekki, af hverju önnur lögmál gilda um lánasöfn heimilanna. En gleymum ekki orðum Yngva Arnar Kristinssonar í hádegisfréttum Bylgjunnar. Ef 40% af lánasöfnum heimilanna eru ennþá í gömlu bönkunum, þá er ekki ennþá komið í ljós hvert sannvirði lána heimilanna er. Eru tölurnar í skýrslu AGS það sem á að miða við? Eða þarf að bæta við 56% af þessum 40%? Eða er það einhver önnur tala?
Annars er þrennt sem ég vil velta upp:
1. Stór hluti heimila í landinu viðurkennir ekki kröfur fjármálafyrirtækja, eins og þær koma fram á greiðsluseðlum. Þau halda vissulega flest áfram að greiða, en það er til að lenda ekki í vanskilum. Almennt viðurkenna lántakar ekki þá stöðu höfuðstóls sem fjármálafyrirtækin halda fram að lánin standi í. Nær allir lántakar með gengistryggð lán ýmist vefengja lögmæti lánanna eða réttmæti útreikninga fjármálafyrirtækjanna, nema hvoru tveggja eigi við. Mjög margir lántakar með verðtryggð lán telja að forsendur lánasamninga séu brostnar vegna mikillar hækkunar á höfuðstóli lánanna í kjölfar fjármálaóstöðugleika, óráðsíu og fjárglæfra nokkurra fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra. Sé ekki gert ráð fyrir þessu í mati á sannvirði lánasafnanna, þá er rétt að menn fari aftur til kröfuhafa bankanna og semji upp á nýtt.
2. Það mat á sannvirði lánasafnanna, sem kemur fram í skýrslu AGS, er tilvalinn grunnur að mati komi til eignarnáms á lánunum eða hluta þeirra. Nú er tækifæri fyrir stjórnvöld að útfæra hugmyndir Gísla Tryggvasonar annars vegar og Jóhanns G. Jóhannssonar og Sigurjóns Arnar Þórðarsonar hins vegar um flutning allra húsnæðislán (og jafnvel fleiri lána) yfir í Íbúðalánasjóð eða aðra stofnun og fara í samræmda niðurfærslu lána þar. Hafa skal í huga, að þarna er bara 60% af lánasöfnum heimilanna og hin 40 prósentin geta verið með hvort hærra eða lægra hlutfallslegt sannvirði.
3. Það skal enginn segja mér, að við mat á sannvirði lánasafna heimilanna hafi verið farið ofan í stöðu hvers einasta lántaka og greiðslugeta viðkomandi metin. Heimildir Hagsmunasamtaka heimilanna segja, að byrjað hafi verið að meta öll verðtryggð lán niður um 20% og öll gengistryggð lán niður um 50%. Það gerir að jafnaði 25% niðurfærslu lánasafnanna. Síðan var gerð varúðarniðurfærsla upp á 10% til viðbótar. Meðan að ekki koma haldbærar sannanir um hið gangstæða, þá þykir mér líklegast að þetta hafi verið gert. Höfum líka í huga, að samkvæmt tölu frá skattinum (sem birtust í Tíund riti ríkisskattstjóra í dag), þá eru um 37 þúsund heimili með neikvætt eigið fé upp á 262 ma.kr. Það er breyting upp á 137 ma.kr. frá árinu áður sem jafnframt er þá aukin þörf fyrir afskriftir vegna hrunsins. En tökum alla upphæðina 262 ma.kr., þá standa um 340 ma.kr. eftir, sem er tæp 24% af því sem eftir er af framtöldum skuldum heimilanna í framtölum þessa árs, þ.e. 340/(1683 - 262). Þannig að allir geta fengið 20% leiðréttingu á verðtryggingu og allir geta fengið 50% leiðréttingu á gengistryggðum höfuðstóli.
Það hefur ítrekað komið fram í málflutningi stjórnvalda að þetta eða hitt sé ekki hægt, þegar koma á til móts við heimilin í landinu, en allt virðist hægt, þegar þyngja á álögur eða bjarga á auðmönnum (fyrrverandi) eða fyrrum háttsettum starfsmönnum bankanna. Almenningur í landinu er orðinn þreyttur á svona framkomu. Skora ég á stjórnvöld og talsmenn þeirra (sértaklega tímabundið ráðna starfsmenn félags- og tryggingamálaráðuneytis) að hætta að segja okkur að eitthvað sé ekki hægt og segja frekar (og meina það frá innstu hjartarótum) að allt sé hægt, það þurfi bara að finna færa leið og sú vinna sé í gangi.
Viðbót 28.3.2024: Síðar kom í ljós að Yngvi Örn var ekkert starfsmaður félagsmálaráðuneytisins, heldur var hann starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja. Þannig var um ansi marga svo nefndar aðstoðarmenn ráðherra á þessum tíma eða að þeir komu úr stjórnendastöðum úr fjármálafyrirtækjunum.