Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.12.2008.
Ég hef svo sem talað um þetta áður, en nú hefur jafnvel Morgunblaðið birt frétt um þetta. Ríkisstjórnir og seðlabankar helstu vinaþjóða okkar bentu ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands á það í sumar, að rétt væri að leita til AGS. Það þótti mönnum ekki nauðsynlegt, móðguðust raunar yfir ábendingunni og töldu vinarþjóðir hafa brugðist sér svo illa að leita varð nýrra vina.
Vinur er sá sem til vamms segir. Að bandaríski seðlabankinn, Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki hafi allir komist að þeirri niðurstöðu, að vandi Íslendinga væri orðinn það ógnvænlegur, að aðstoðar AGS væri þörf, hefði átt að segja mönnum eitthvað annað, en að allir væru á móti þeim. Það væri gott að fá að vita hverjir tóku þessa ákvörðun, sem svo gott sem felldi íslensku bankana nokkrum vikum síðar. Þetta er sérlega forvitnilegt í ljósi þess, að ríkisstjórnir Ungverjalands og Úkraínu ákváðu að leita til AGS áður en allt var komið í óefni til að koma í veg fyrir sams konar kollsteypu og hér varð.
En það er ekki sanngjarnt að beina allri sökinni að ríkisstjórn og Seðlabanka. Ég hef á undanförnum vikum heyrt og lesið alls konar sögur af fólki sem vissi með góðum fyrirvara að eitthvað mikið væri að gerast. Þannig er sagan af einum af lögmönnum bankanna, sem varaði samferðafólk sitt við því í febrúar að allt ætti eftir að fara á hausinn í byrjun október. Samferðafólkið skellti skollaeyrum við og áleit manni vera að rugla. Ég spyr bara, ef þessi lögmaður var svona viss um að allt færi yfir um 7 - 8 mánuðum áður en kollsteypan varð, af hverju var ekki hægt að bregðast við. Önnur saga er af lögmanni sem sagði sambærilega sögu um mitt sumar, nema hann varaði viðmælendur sína við að geyma fjárfestingar sínar í ákveðnum sjóðum og hlutabréfum tiltekinna fyrirtækja. Vonandi hlustaði einhver á hann. Þriðja sagan er af manninum, sem las það út úr vanda Eimskipa vegna ábyrgða hjá XL, að Landsbankinn væri að komast í þrot. Hans rök voru, að fyrst að Björgólfarnir yrðu að gangast í ábyrgðir, þá væri fokið í flest skjól hjá Landsbankanum. Hann kom peningunum sínum í betri geymslu. Raunar labbaði hann inn í bankann sinn með nokkrar ferðatöskur og tók út 70 milljónir í reiðufé. Mikið hefði verið gott að hafa 100.000 kr. seðil í umferð í staðinn fyrir að hafa þetta allt í 5.000 kr. seðlum.