Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.10.2008.
Það er í raun stórfurðulegt að fylgjast með öllu þessu máli í kringum lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Hér á landi er um pukur að ræða, þar sem enginn fær að vita neitt. Á sama tíma eru Úkraína og Ungverjaland einnig að taka svona lán. Þar fer umræðan um lánið fram fyrir opnum tjöldum og lögð er áhersla á að þing landanna samþykki lántökuna. Forsætisráðherra Ungverjalands neitaði t.d. að taka lánið, nema breið samstaða allra flokka á ungverska þinginu næðist um málið. Allir flokkar urðu að samþykja lántökuna, ekki bara sumir. Allir fá að vita um hvað málið snýst, ekki bara sumir. Sama er uppi á teningunum í Úkraínu.
Við stærum okkur af því að eiga elsta löggjafaþing í heiminum. Við stærum okkur af því að vera vestrænt lýðræðisríki með ríka lýðræðishefð. Við teljum okkur vera þess megn að gagnrýna önnur ríki vegna stjórnarhátta þeirra. En ríkisstjórn Íslands, sem starfar í umboði Alþingis og þjóðarinnar, telur hvorki ástæðu til að upplýsa Alþingi eða almenning um hvað var samið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Hún telur ekki ástæðu til að upplýsa Alþingi eða almenning um hver staða efnahagsmála er og hvaða úrræði hún telur sig hafa í stöðunni.
Það er stórmerkilegt, að ríkisstjórn Ísland skuli telja Íslandi best stjórnað með einræðislegum tilburðum, meðan gömlu kommúnista einræðisríkin í Austur-Evrópu leggja allt upp úr því að treysta þingræði og þar með lýðræði sinna landa.
Síðan má spyrja sig, hvort öðru vísi væri fyrir okkur komið, ef ríkisstjórnin hefði orðið við ábendingum ríkisstjórna Bretlands og Bandaríkjanna og seðlabanka Bretlands, Bandaríkjanna og Evrópu í sumar um að vandamál íslenska hagkerfisins væri svo alvarlegt að aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins væri nauðsynlegt. Vinur er nefnilega sá sem til vamms segir. Mér sýnist sem Ungverjar og Úkraínumenn hafi ákveðið að læra af mistökum Íslendinga með því að leita til IMF áður en hagkerfið og/eða bankakerfið komast í þrot.
Viðbót frá höfundi úr athugasemdum:
þú spyrð hvað ég veit um stýrivexti. Ætli sé ekki bara best að vitna í Seðlabankann til að segja það í einföldu máli:
Stýrivextir eru þeir vextir sem yfirvöld nota til að reyna að hafa áhrif á markaðsvexti. Víðast eru þetta vextir á einhvers konar seðlabankaútlánum eða -innlánum. Tilgangur með hækkun slíkra vaxta getur verið að draga úr ofþenslu og verðbólgu eða hækka gengi gjaldmiðils. Hér á landi eru stýrivextir þeir vextir sem Seðlabanki Íslands ákveður á fyrirgreiðslu við lánastofnanir í formi svokallaðra lána gegn veði (áður endurhverf verðbréfaviðskipti), en í þeim viðskiptum geta lánastofnanir fengið fé að láni frá Seðlabankanum í 7 daga gegn veði í skuldabréfum.
Ég veit nóg til að vita hvernig þeir virka og til að átta mig á því að eina leiðin til að þeir virki í þennsluverðbólgu er að þeir séu jákvæðir. Það ástand sem ríkir nú er aftur á móti verðbólga samhliða samdrætti. Þá virka önnur hagfræðilögmál og þau eru mun vandmeðfarnari. Jafnframt erum við að kljást við útstreymi fjármagns frá landinu. Það togast því á nokkrir ólíkir kraftar og virka þeir í ólíkar áttir.
Ég hef ekki sett út á hækkunina sem slíka, bara það að vextirnir voru lækkaðir um daginn, þegar fyrirséð var að 12 mánaða verðbólga mæld í október yrði hærri en verðbólgumæling í september. Ég hef sjálfur spáð því að ætli Seðlabankinn að halda raunstýrivöxtum jákvæðum, þá gætum við átt von á því að þeir hækki verulega (í allt að 25%) á næstu mánuðum.
Annars kom verðbólgan ekkert í gær. Það voru niðurstöður mælinganna sem komu í gær og þær voru, ef eitthvað var lægri en efni stóðu til. Hafi einhver ekki áttað sig á því að verðbólgumæling í október myndi sýna hærri mælingu en í september þá var sá hinn sami í slæmri afneitun eða gjörsamlega ignorant um samspil 18% gengislækkunar og hækkunar verðlags.
Ég er alveg á því að þessi hækkun stýrivaxta var fyrirsjáanleg, en hún er ekki út af tölum Hagstofunnar í gær. Menn hækka ekki stýrivexti út af því sem er að baka, heldur því sem er framundan. Seðlabankinn er því líklega að búa sig undir að sleppa krónunni lausri og þá verður fjandinn laus.
Eitt í viðbót. Í hagfræði er til hugtak á ensku sem heitir "stagflation" og er það búið til úr orðunum "stagnation" (stöðnun) og "inflation" (verðbólga). Það lýsir því ástandi þegar samdráttur og verðbólga fara saman svipað og er að gerast hér. Spurningin er hvor djöfullinn er verri. Í venjulegu þjóðfélagi er betra að hafa verðbólgu á kostnað stöðnunar eða samdráttar, sem er svona svipað og við höfum yfirleitt haft, en við núverandi aðstæður á Íslandi, þá virkar verðbólgan mjög skarpt á yfirskuldsett þjóðfélagið og því er valið erfitt. Verðbólga hækkar lánin, sem verkar á afborganir, sem verkar á kaupmátt, sem eykur samdráttinn. Af mörgum slæmum kostum eru allir vondir.