Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað?

Jæja, ég hef verið að kalla eftir viðbrögðum frá ríkisstjórn og Seðlabanka vegna fjármálakreppunnar sem gengið hefur yfir undanfarna ríflega 13 mánuði.  Nú sannast hið fornkveðna, að menn eigi að gæta hvers þeir óska.

Ég get ekki gert að því að velta því fyrir mér hvort viðbrögð ríkisstjórnar og Seðlabanka vegna beiðni Glitnis um aðstoð/þrautarvaralán hafi ekki verið full ofsafengin.  A.m.k. eru þessir aðilar búnir að útiloka að Kaupþing, Landsbanki eða nokkuð annað fjármálafyrirtæki láti sér detta í hug að leita til þeirra um aðstoð.  Viðbrögð Þorsteins Más Baldvinssonar sögðu allt sem segja þarf.  Hann telur að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi sett fram ofurkosti sem séu í engu samræmi við stöðu mála.  Mér sýnist að þarna hafi sleggju verið beitt þegar hamar hefði dugað.

Annars tók ég líka eftir því að bæði Lárus Welding og Þorsteinn Már neituðu staðfastlega að gjaldþroti hafi blasað við Glitni meðan Davíð, Geir og Björgvin ásamt þingmönnum stjórnarandstöðu hömruðu á því að Glitnir hefði verið gjaldþrota.  Mér finnst nú vera himinn og haf á milli ummæla þessara tveggja fylkinga og það kalli nú á einhverjar skýringar.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hversu víðtækar aukaverkanir lyfsins verða.  Með aðgerðinni hafa verið þurrkaðir út rúmlega 50 milljarðar af eigin fé Stoða.  Aðrir stórir hluthafar munu líka fá mikinn skell og má þar nefna Þáttur International, Saxbygg, Lífeyrissjóði Bankastræti 7 og Salt Investment.  Ég get ekki séð að þessir aðilar gangi sáttir frá borði.  Lyfið mun örugglega verka á sjúkdóminn sem Glitnir er að kljást við, en hefur þegar valdið mun alvarlegri sjúkdómi annars staðar í þjóðfélaginu.

Seðlabanki og ríkisstjórn eru vissulega búin að sýna fjárhagslegan styrk sinn.  Upphæðin sem sett er í þessa björgunaraðgerð er 20% hærri en pakkinn stóri í Bandaríkjunum, ef tekið er mið að höfðatölunni góðu.  (Nei, 19,5%.  Nei, 19%. 18%.  Úps, ég gleymdi mér.  Ég var að fylgjast með gengisskráningunni.)  En, ef banki leitar til Seðlabankans um þrautavaralán, eins og Glitnir gerði, á hann þá ekki að geta fengið slíkt lán?  Er það ekki það sem felst í þrautavaraláni, að það er veitt í neyð?  Af hverju fékk Glitnir ekki slíkt lán, þegar hann leitaði til Seðlabankans?  Þessum spurningum þarf að svara á viðhlítandi hátt.  Hvað átti Þorsteinn Már við þegar hann segir að ekkert annað hafi verið í boði?  Hvers vegna segir Lárus að enginn aðkallandi vandi hafi verið, þó lausafjárskortur hafi verið fyrirsjáanlegur, en pólitíkusarnir og Davíð tala um gjaldþrot?  Það þarf svör við þessu líka.  Var versta úrræði beitt, þegar mildari aðgerðir hefðu dugað?

Án þess að hafa nokkuð fyrir mér, þá held ég að hluthafar Glitnis muni setja sig í samband við Nordea eða aðra stóra banka á Norðurlöndum og bjóða bankann til sölu.  Vandamálið er að ríkið hefur sett á hann ákveðinn verðmiða, sem mér telst vera 113 milljarðar, og engum dettur í hug að bjóða hærra en það.

Frétt sem bloggað er við:  Geta treyst styrk Glitnis áfram