Hvað er langt í landsfund Sjálfstæðismanna?

Hvernig vildi það til að Geir var hleypt í stól formanns Sjálfstæðisflokksins?  Ég hlustaði á ræðuna hans í kvöld vegna þess að ég hélt að hann hefði eitthvað fram að færa.  Maðurinn er forsætisráðherra þjóðarinnar á mestu krepputímum á lýðveldistíma.  Hvað segir hann?  Listamenn eru að gera það gott!!  Ríkisstjórnin hefur góð tök á málunum!!  Er ekki alveg í lagi?

Ég vona þjóðarinnar vegna, að stutt sé í næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín bjóði sig fram á móti honum þar.  Ég veit það frá gamalli tíð að hún hefur bein í nefinu og kemur hlutunum í verk.  Hún er búin að laga skemmdirnar sem Björn vann á menntakerfinu og nú er komið það því að hún lagi það sem Geir og Davíð hafa eyðilagt í hagkerfinu.

Annars get ég ekki annað en furðað mig á ummælum Björgvins, viðskiptaráðherra, þegar hann sagði að verið væri að taka saman lista yfir það sem hægt væri að gera.  Fjármálakreppan er búin að vera í gangi í 14 mánuði og þar af verið mjög alvarleg í tæpa 7 og það er núna fyrst verið að taka saman LISTA yfir það sem hugsanlega er hægt að gera.  Hvers konar stjórnun er þetta?

Ég vinn við að aðstoða fyrirtæki við að framkvæma áhættumat og áhrifagreiningu vegna stjórnunar á upplýsingaöryggi.  Upplýsingaöryggi er ríkur þáttur í rekstraröryggi og jafnvel fjárhagslegu, þó ég skipti mér almennt ekki að því síðarnefnda nema hvað varðar aðgang að upplýsingum og staðgengla fyrir verk.  En í mínu starfi vinn ég við að spyrja "Hvað ef?" spurninga.  Mér finnst einhvern veginn sem það hafi gleymst síðustu mánuði að spyrja hvað er það versta sem gæti gerst.  Þó maður spyrji slíkra spurninga, þá er maður ekki þar með að reikna með að það versta gerist, en geti maður gert sér það versta í hugarlund, þá getur maður búið sig undir það. 

Auðvitað reikna ég með Seðlabankinn hafi verið á fullu í því frá því að krónan var sett á flot að velta fyrir sér hinum og þessum áhrifum ákvarðana sinna.  Það virðist bara vera sem þeir hafi ekki verið nógu svartsýnir.  Það sama á við um það þegar ákvörðunin var tekin um síðustu helgi að þjóðnýta Glitni og rýra eigur hluthafa um 180 milljarða.  Menn veltu því greinilega ekki fyrir sér hvað þessir 180 milljarðar voru notaðir í fyrir utan að vera hlutafé í Glitni.  Menn skoðuðu greinilega ekki ruðningsáhrifin af því að tryggingarnar/veðin, sem fólust í hlutabréfunum, hyrfu.  180 milljarða hlutafé í Glitni er notað sem tryggingar í alls konar viðskiptum við hina bankana, þannig að það voru ekki bara hluthafarnir sem töpuðu peningunum sínum heldur töpuðu lánadrottnar þeirra tryggingunum sínum.  Þó Kaupþing eigi 500 milljarða í eigin fé, þá má bankinn ekkert við því að tapa tryggingum upp á 90 - 130 milljarða bara si svona eða hver svo sem upphæðin var.  Sama á við um Landsbankann.  Menn voru svo æstir í að eignast banka, að þeir föttuðu ekki hvað þeir gerðu, af því að þeir spurðu sig ekki hvað væri það versta sem gæti gerst.  Eða kannski spurðu þeir sig að því og vissu að með þessu myndu þeir eignast alla bankana á silfurfati?

Ég vil síðan bæta við, að um allan heim eru menn á mínu sviði að fást við þrennt um þessar mundir:  Áhættustjórnun, stjórnun rekstrarsamfellu/neyðarstjórnun og finna leiðir til að hlíta ákvæðum laga og reglna og uppfylla kröfur fjármálaeftirlita og Seðlabanka.  Og fyrir fjármálaheiminn er ekkert mikilvægara núna en að spyrja sig að því hvað getur farið úrskeiðis næst og hvernig geta menn komið í veg fyrir það eða linað áfallið.  Slíkt er ekki gert nema með samstilltu átaki allra ráðandi aðila innan fjármálastofnana og með því að setja áhættustjórnun í forgang.  Um þessar mundir hagnast menn eingöngu á því að koma í veg fyrir tapið, áfallið.  Menn gera það ekki með endurhverfum viðskiptum, vegna þess að menn vita ekki hvort hinn aðilinn verður til staðar á morgun.  Með gera það ekki með afleiðuviðskiptum eða skortsölu eða flóknum stærðfræðilíkönum eða hvað það nú er.  Menn gera það eingöngu með því að líta eins einfalt á hlutina og hægt er:  Hvað gerist ef tiltekin eign, þjónusta, starfsemi, starfsþáttur, samningur o.s.frv. er ekki til staðar? Hvernig getur stofnunin dregið úr líkunum á því að það gerist? Hvernig getur stofnunin brugðist við ef það gerist?  Hefur stofnunin getu til að standa af sér slíkt áfall?

Frétt sem bloggað var við:  Glitnisaðgerð ekki endapunktur