Ótrúlegur Geir

Á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, er alveg ótrúlegt viðtal við forsætisráðherra, Geir H. Haarde.  Þar sem m.a.:

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt, við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, að fólk gangi ekki með þær grillur í höfðinu um að hægt sé að leysa vandann með einhverjum örþrifaráðum. Hann vísar á bug fullyrðingum stjórnarandstöðunnar og bloggara um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna,“ sagði Geir í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Hagkerfið okkar hefur mikla aðlögunarhæfni og það er fljótt að snúa sér við þegar aðstæður breytast,“ sagði Geir enn fremur.

Ég segi bara:  Ekki vildi ég þurfa skyndihjálp frá þessum manni.  Það tæki hann marga daga að ákveða hvað ætti að gera!

Í þessari viku eru 5 mánuðir síðan að krónan snarféll.  FIMM MÁNUÐIR.  Það teljast vart örþrifaráð að hafa gert eitthvað af viti til að styrkja krónuna og hagkerfið á FIMM MÁNUÐUM.  Og ekki bara þessir fimm mánuðir, heldur má segja að lækkunarferli hennar hafi byrjað í ágúst á síðasta ári.  Á þessu tímabili hefur núverandi ríkisstjórn nánast ekkert gert annað en beðið.  Og svo ber forsætisráðherra sér á brjósti og eignar núverandi ríkisstjórn heiðurinn af því að ,,viðskiptajöfnuður í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna." 

Ég held að við séum í verri málum, en nokkurn hefur grunað.  Forsætisráðherra þjóðarinnar, hagfræðingur að mennt, sér ekki að ástæðan fyrir jákvæðum viðskiptajöfnuði er vegna a) hruns krónunnar, en verðmæti útflutnings hefur hækkað af þeim sökum, b) mikillar aukningar á útflutningi áls, sem kemur aðgerðum eða aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar ekkert við, c) minnkandi innflutnings (í magni), þar sem algjör stöðnun hefur orðið í fjölmörgum þáttum efnahagskerfisins og eingöngu eru fluttar inn brýnustu nauðsynjar.  Um leið og gengi krónunnar styrkist, þá má búast við að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á ný.  Staða bankanna hefur heldur ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera.  Þar er fyrst og fremst um að ræða vaxtatekjur vegna annars vegar verðtrygginga lán og hins vegar vegna þess að lágmarksvextir óverðtryggðra lána eru komnir vel yfir 15,5% stýrivextir Seðlabankans, og hins vegar má rekja hagnað bankanna til gengishagnaðar vegna sílækkandi krónu. Ég spyr bara:  Hvað er sandurinn djúpur þar sem strúturinn hefur stungið hausnum í þetta sinn?

Vandi bankanna undanfarna mánuði hefur ekki tengst raunverulegri stöðu þeirra, heldur hefur verið um ímyndarvanda að ræða.  Annars vegar bjuggu þeir sér sjálfir til ákveðið orðspor skjótra ákvarðana, áhættusækni og skuldsettra yfirtaka, þar sem það hentaði þeirra viðskiptamódeli.  Síðan breyttu þeir um viðskiptamódel en náðu ekki að breyta þeirri ímynd sem aðrir höfðu af þeim. Erlendar fjármálastofnanir eru ennþá (eða þar til fyrir skömmu) með gamla viðskiptamódelið í huga þegar þær meta stöðu bankanna. Hins vegar snýr ímyndarvandinn að Seðlabankanum og ríkisstjórn.  Það hefur ekki nokkur maður trú á að þessir aðilar hafi fjárhagslega getu til að styðja við íslenska bankakerfi, ef allt fer á versta veg.  Seðlabankinn, sem meðal annarra orða á að styðja við gengi krónunnar og halda verðbólgu innan tiltekinna marka, hefur hvorki trúverðugleika né fjárhagslegan styrk í þessi tvö megin verkefni sín. Það eru ekki örþrifaráð að breyta þessari ásýnd Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar.  Það er lífsnauðsynlegt. 

Kannski er forsætisráðherra þjóðarinnar alveg sama um það að fjölmörg fyrirtæki séu að fara í gjaldþrot og þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru að missa vinnuna og þar með lífsviðurværið. Kannski líður honum vel með stöðuna, enda vafalaust umkringdur já-bræðrakór.  Hann áttar sig kannski ekki á að fjölmargir rekstraraðilar og einstaklingar þurfa að velja á milli að "lengja eða hengja", eins og Orðið á götunni komst að orði um daginn.  Mánaðarlegar greiðslur af lánum hafa hækkað um tugi prósenta meðan tekjur standa í stað eða lækka. Ef ekkert verður gert fljótlega, þá þarf að grípa til örþrifaráða, en á FIMM MÁNUÐUM hefði mátt gera eitthvað meira en nærri ekki neitt.