Forsætisráðherra flutti föðurlega ræðu á Austurvelli á 17. júní. Þegar maður les yfir ræðuna (á vef forsætisráðuneytisins), þá veltir maður því fyrir sér í hvaða fílabeinsturni hann dvelur dagana langa. Mig langar hér að fjalla um nokkur atriði, sem mér finnst vera á skjön við veruleikann eða ekki byggða á því innsæi, sem maður væntir frá forsætisráðherra þjóðarinnar.
1. Hann áminnir okkur landsmenn um að draga saman seglin vegna hækkunar eldsneytis, minnka akstur og aka sparsamari bílum. Einnig ræddi hann um að breyta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Um þetta atriði er það að segja, að verulega hefur dregið úr akstri síðustu mánuði. Þetta hefur mátt merkja á Hafnarfjarðarvegi frá því í febrúar og er það hending að umferðarteppa myndist þar á morgnana. Ekki er auðvelt að skipta yfir í sparneytnari bíla í einum grænum, því til þess að það sé hægt þarf að vera hægt að selja þann gamla. Ekki er hlaupið að því frekar en nokkru öðru sem krefst lánsfé í þessu þjóðfélagi í dag. Og varðandi breytta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti, þá er það alfarið í höndum fjármálaráðherra, sem ekki hefur mátt heyra á það minnst að lækka álögur á eldsneyti en frekar viljað auka þær. Nýlega skilaði enn ein nefndin af sér tillögu, að þessu sinni um að setja 5 - 7 króna koltvísýringsskatt á hvern seldan lítra af jarðefniseldsneyti. Halda menn virkilega að 5 - 7 krónur muni breyta einhverju, þegar 70 - 100 kr. hækkun hefur breytt litlu. Breyttar gjaldtökur á ökutækjum skila sér á löngum tíma og breyta því nákvæmlega engu fyrir ástandið í dag. Það var svo sem ekki við því að búast að þessi ríkisstjórn gerði eitthvað til að létta undir með almenningi, enda gekk forsætisráðherra í læri hjá meistara iðnarinnar ,,athugum hvort þetta líði ekki hjá þó við gerum ekkert".
2. ,,Það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir að tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis."
Í fyrsta sinn viðurkennir forsætisráðherra að til alvarlegs atvinnuleysis gæti komið. Það er mikill viðsnúningur frá fyrri ummælum hans og fjármálaráðherra, sem vísað hafa þeim möguleika alfarið á bug. Þegar litið er síðan til þess að ríkisstjórnin hefur nánast ekki gert neitt á síðustu mánuðum, fyrir utan að fá heimild til lántöku, þá spyr maður sig, hve langan tíma ætlar ríkisstjórnin að taka sér í að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis". Hvað ætlar ríkisstjórnin að misnota mörg færi til að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis" áður en hún loksins grípur til aðgerða? Þetta er farið að minna óþyrmilega á landsleik Íslands og Makedóníu. Hverju tækifærinu til að gera eitthvað marktækt klúðrað vegna þess að menn telja sig ekki þurfa að reka smiðshöggið á verkið. Það er staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki endalausan tíma til að grípa til aðgerða eigi að sporna gegn alvarlegu atvinnuleysi og haldi fram sem horfir, þá mun tíminn renna út á ríkisstjórnina eins og á handboltalandsliðið sl. sunnudag.
3. ,,Við Íslendingar vorum vel undir bakslag búnir, betur en flestar aðrar þjóðir"
Nei, við vorum illa undir þetta bakslag búin. Meðalársnotkun Íslendinga á jarðeldsneyti er með því hæsta í heimi. Bílaeign er því mesta í heimi á íbúa. Vegakerfið er ekki sérstaklega hentugt fyrir ,,góðakstur". Og svona mætti lengi telja.
4. ,,Þegar litið er til þess hvernig staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýnir sig að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. Slíkir eiginleikar eru ekki aðeins verðmætir í fari einstaklinga, heldur eiga þeir einnig við um þjóðir og fyrirtæki. Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin."
Það er einmitt þetta traust sem virðist vanta. Ekki á íslensku þjóðinni heldur á íslenska hagkerfinu og hagstjórninni. Ástæðan er fyrst og fremst aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem hefur ítrekað sýnt að hún hefur ekki hugmynd um hvað er til bragðs að taka. Fyrir örfáum vikum var gengisvísitalan í 145 og skuldatryggingarálag ríkissjóðs var vel undir 200. Þeir tímar eru liðnir og tækifærin runnin ríkisstjórninni úr greipum í bili að minnsta kosti. Hvort að Geir og félögum tekst að ávinna sér traust aftur á næstum vikum á eftir að koma í ljós, en það verður ekki gert með því aðgerðarleysi sem við höfum mátt horfa upp á undanfarnar vikur.
5. ,,Gleymum því þó ekki hve þessi þróun leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en okkur"
Ég veit ekki alveg hvar forsætisráðherra hefur alið manninn síðustu mánuði. Það hefur engin þjóð meðal þeirra sem við viljum bera okkur saman við farið jafn illa út úr þeim ,,alheimsvanda, sem nú er verið að fást við". Það hefur enginn gjaldmiðill á Vesturlöndum lækkað eins hressilega og íslenska krónan, það hefur ekkert land þurft að búa við eins okurkennt skuldatryggingarálag og Ísland. Við hvaða þjóðir er forsætisráðherra að bera okkur saman við? Simbabve, Haíti eða Írak? Ég man í svipan ekki eftir öðrum löndum sem eru í sambærilegum vanda. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að það væri meiri metnaður í ráðherranum en þetta.
6. ,,Alþingi hefur veitt ríkisstjórninni heimild til sérstakrar lántöku innan lands eða utan á árinu 2008... Sama tilgangi þjónar nýr samningur milli Seðlabanka Norðurlandanna, sem sýnir jafnframt norrænt vinarþel í verki. Þessar aðgerðir treysta varnir og viðbúnað landsins út á við sem er nauðsynlegt þegar vindar blása á móti."
Samningurinn við seðlabanka Norðurlanda dró tímabundið úr falli krónunnar, en þar sem of langur tími hefur liðið og ríkisstjórnin bara beðið á hnjánum, þá er allt fallið í sama farið aftur. Lántökuheimildin ein og sér hefur engin áhrif meðan hún er ekki nýtt og það gæti raunar virkað í öfuga átt að bíða með að nýta hana. Varnir landsins eru ekki bara veikar, þær hafa brostið víða. Ef þetta væru flóðvarnargarðar, þá væru stór landsvæði undir vatni og það sem meira væri ríkisstjórnin hefði ekki minnsta grun um hvernig bregðast ætti við. Aðgerðirnar drógu vissulega tímabundið úr fallinu, en síðan áttuðu spákaupmenn sig á því að orðum fylgdu ekki verk. Þessar aðgerðir hafa ekkert gert til að hleypa lífi í húsnæðismarkaðinn eða lánamarkaðinn. Það er allt steindautt. Seðlabankinn hefur enga burði til að létta undir með markaðsaðilum fyrr en búið er að nýta lánsheimildina.
Mér finnst forsætisráðherra hafa í ræðu sinni talað gegn betri vitund eða að hann er í slæmri afneitun.