Glitnir breytir stýrivaxtaspá

Ég get ekki annað en haft gaman af þessari breyttu spá Glitnis.  Það er nefnilega ekki nema mánuður síðan að greiningardeild bankans gerði ráð fyrir að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti 6. nóv.  Það er líka mánuður síðan að ég birti mína spá um þróun stýrivaxta (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?), þar sem ég spáði því að bara út frá verðbólguspá væri ólíklegt að Seðlabankinn hæfi lækkunarferlið fyrr en í desember.  Seðlabankinn hefur sjálfur gefið út að lækkunarferlið hefjist ekki fyrr en á næsta ári.

Þetta veltur í mínum huga allt á spurningunni sem ég spurði færslu minni, sem ég vísa í hér að ofan.  Þ.e. hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?  Meðan Seðlabankinn svarar ekki þeirri spurningu á skýran hátt, þá er ekkert hægt að segja til um hvenær þær aðstæður hafa skapast í þjóðfélaginu að Seðlabankanum finnist tímabært að lækka stýrivextina. 

Vissulega veltur þetta mikið á verðbólgutölum næstu tveggja mánaða.  Eins og ég sagði í færslu minni í gær, þá er talsverð óvissa um hvort áhrif af útsölulokum séu að fullu komin fram í vísitölu neysluverðs.  Greiningardeildir bankann eru ekki sammála um þetta.  Glitnir telur svo ekki vera, meðan Landsbankinn er fullur bjartsýni.  Sjálfur tel ég að þessi áhrif séu að stærstum hluta komin fram, en set vikmörk í mínar tölur.

Mig langar að skoða aðeins verðbólguspá Glitnis fyrir næsta mánuð, þ.e. breytingu vísitölu neysluverðs milli ágúst og september.  Greining Glitnis spáir því (samkvæmt frétt mbl.is í gær) "að vísitala neysluverðs hækki hraustlega á milli mánaða", en einnig var haft eftir starfsmanni Greiningar Glitnis í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að verðbólgutoppnum yrði náð í september. Þetta er ákaflega forvitnileg staðhæfing og mér finnst hún raunar óraunhæf.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Verðbólga í september í fyrra var 1,3% (þ.e. breyting milli mælinga í ágústbyrjun og septemberbyrjun). Til þess að ársverðbólga í september í ár verði meiri en í september í fyrra, þá þarf breytingin á vísitölu neysluverðs milli ágúst og september í ár að vera meiri en 1,3%.  Það verður að teljast mjög ólíklegt (þó það sé vissulega ekki útilokað).

Loks langar mig að varpa fram þeirri spurningu hvort rétt sé mælt og þá með tilvísun til ársverðbólgu.  Ástæðan fyrir því að ég spyr er að um áramót var gerð breyting á vísitölumælingu sem gerir það að verkum að tölur yfir ársverðbólgu ná í raun yfir 54 vikur, en ekki 52 vikur.  Það skiptir kannski ekki megin máli, þar sem þetta leiðréttist í janúar, en samt.  Ársverðbólgan sem núna mælist er sem sagt 54 vikna verðbólga.  Sé hún leiðrétt miðað við 52 vikur, þá kemur í ljós að vísitöluhækkunin myndi mælast tæp 14%, ef notuð er einföld stærðfræði, þ.e. 14,5/54*52.  Sé aftur aðeins talin með helmingurinn af vístöluhækkuninni milli júlí og ágúst, þá rétt slefar ársverðbólgan yfir 14%.  En af hverju skiptir þetta máli?  Jú, með þessari mælingu, þá eru raunstýrivextir 1,5% í stað 1%.  Með þessari mælingu minnkar þrýstingur á Seðlabankann að hækka stýrivexti, sem annars væri mjög freistandi. Niðurstaðan er samt sú að ársverðbólgan er "bara" 14%, ekki 14,5%.

Frétt sem bloggað er við:  Spá óbreyttum stýrivöxtum út árið