Blame it on Basel

Það virðist vera sama hvert maður snýr sér alls staðar í hinum vestræna heimi virðast sömu einkennin poppa upp.  Fyrst sér maður mikla hækkun húsnæðisverðs og liggur við ótakmarkaðan aðgang að ódýru lánsfé til stórra fjárfestinga á síðustu árum og síðan síðustu 12 mánuði mikinn viðsnúning með þurrð á lánfjármarkaði og afturkipp á húsnæðismarkaði.  En hvernig stóð á því að allt í einu var alls staðar hægt að fá nær ótakmarkað lánsfé?

Ástæðunnar er að leita til stofnunar sem heitir Bank for international settlements (BIS) og er með höfuðstöðvar í Basel í Sviss.  BIS er banki seðlabanka og sem slíkur samstarfsvettvangur seðlabanka um allan heim.  BIS var stofnaður 17. maí 1930 og er því elsta alþjóðlega fjármálastofnun í heiminum.  Meðal ákvarðana sem teknar eru innan BIS eru um peningalegan og fjárhagslegan stöðugleika.  Í þeim tilgangi hittast á tveggja mánaða fresti á vegum BIS seðlabankastjórar og aðrir yfirmenn seðlabanka í heiminum til að ræða um peningaleg og fjárhagsleg málefni.  Það sem þar er rætt er líklegast ofar skilningi flestra okkar sem teljumst leikmenn í þessu samhengi, en það hefur mikil áhrif á líf okkar.  A.m.k. fjárhagslegt líf okkar.

Innan BIS starfa fjölmargar nefndir, en ein þeirra, sem gengur undir heitinu Basel Committee on Banking Supervision, er samráðsvettvangur um málefni sem snerta bankaeftirlit.  Markmið hennar er að auka skilning á veigamiklum eftirlitsatriðum og efla gæði bankaeftirlits/fjármálaeftirlits.  Helsta viðfangsefni nefndarinnar er hvernig meta á og fást við alls konar áhættu í rekstri banka og fjármálastofnana.  Þetta er gert með alls konar reglum og leiðbeiningum, svo sem um bókhald og endurskoðun, vandamál í bankastarfsemi, reglur um eiginfjárhlutfall og markaðsáhættu, greiðsluhæfi, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, rekstraráhættu, áhættustjórnun og gegnsæi og afhjúpun.  Eins og sjá má af þessari upptalningu eru verkefni nefndarinnar stór og hefur hún verið ákaflega dugleg við að senda frá sér alls konar reglur, tilmæli og leiðbeiningar, sem með litlum töfum hafa verið teknar upp hér á landi.  

Margar af reglum, tilmælum og leiðbeiningum BIS gefa mönnum eins og mér fjölmörg tækifæri til að veita fjármálastofnunum ráðgjöf um áhættu- og öryggisstjórnun og er það ástæðan fyrir því að ég hef kynnt mér málefni stofnunarinnar.  En það er ekki það sem ég ætlaði að fjalla um. 

Árið 1988 var gefið út mikið regluverk sem gengur undir heitinu Basel Capital Accord, en því var m.a. ætlað að ákvarða reglur um eiginfjárkröfur fyrir fjármálastofnanir, um eftirlitsferli og markaðshegðun.  Þekktasta krafan í þessum reglum er um 8% eiginfjárhlutfall vegna útlána, þ.e. til þess að fjármálastofnun gæti lánað einstaklingum eða fyrirtækjum 100 kr., þá varð hún að eiga á móti 8 kr. í eigin fé.  Á þessu voru undantekningar og var notaður áhættustuðull til að lækka eða hækka kröfuna. 

Árið 2001 var gefin út endurskoðuð og mun ítarlegri útgáfa sem gengur undir heitinu The New Basel Capital Accord eða Basel II.  Í þessari nýju útgáfu voru gerðar ýmsar breytingar á kröfum til áhættustjórnunar og ætla ég ekki að þykjast þekkja þær allar.  Þó veit ég af tveimur mikilvægum breytingum.  Önnur snertir störf mín sem ráðgjafa, en hún snýst um rekstraráhættu, og hin snýr að kröfu um eiginfjárhlutfall útlánastofnana og er líklegast völd af öllum þeim vandræðum sem hafa verið að hellast yfir fjármálakerfi Vesturlanda undanfarið ár eða svo.

Bæði í útgáfunni frá 1988 og þeirri nýju er notast við áhættustuðul til að draga úr eða auka eiginfjárkröfur.  Í 1988 reglunum giltu mun strangari reglur um t.d. hvaða veðlán gátu verið með "afslætti" en í nýju reglunum.  Þannig voru það fyrst og fremst lán á fyrsta veðrétti sem gátu veitt slíkan "afslátt", en í reglunum frá 2001, þá fá öll lán til einstaklinga með veði í íbúðarhúsnæði 50% afslátt frá kröfum um eiginfjárhlutfall.  Auk þess lækkuðu kröfur vegna útlána til "traustra" fyrirtækja úr 100% niður í 50%.  Þessum reglum var hrint í framkvæmd hér á landi með reglum Seðlabankans um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja nr. 530/2003 frá 30. júní 2003.  Með reglunum var útlánageta fjármálafyrirtækja nokkurn veginn tvöfölduð á einni nóttu.  Bankar sem áður gátu lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigin fé, gátu nú lánað 200 kr. gegn þessum 8 kr. til "traustra" fyrirtækja eða gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði.  Á móti var gerð stífari krafa til greiðsluhæfi lántakenda.

Hér á landi gerðist það til að byrja með að útlán til fyrirtækja jukust, sem m.a. dró vagninn í landvinningum fyrirtækja erlendis og viðskipti í Kauphöllinni urðu líflegri.  Án þess að vita það, þá reikna ég með að svipað hafi gerst í nágrannalöndum okkar, ásamt því að lán til fasteignakaupa jukust, sérstaklega í Bandaríkjunum.  Þar fór að bera meira á hinum svo kölluðu undirmálslánum, en það skal tekið skýrt fram að þau höfðu þá verið við líði í um 10 ár.  Hér á landi fóru þessi lán til að byrja með í litlu mæli til fasteignakaupa, en það átti eftir að breytast. 

Með ákvörðun Árna Magnússonar, þáverandi félagsmálaráðherra, um að hækka lán Íbúðalánasjóðs og lánshlutfall sumarið 2004, var varpað sprengju inn á íbúðalánamarkaðinn.  Bankarnir ákváðu að fara í samkeppni, enda áttu þeir ónýtta mikla lánamöguleika.  Eftirleikinn þekkja allri. 

En þessu var ekki lokið. Í nóvember 2005 gaf BIS út nýtt plagg, International Convergence of Capital Measurement and Capital Standards, þar sem gerðar eru nokkrar breytingar á Basel II reglunum.  Meðal þeirra breytinga var að áhættustuðullinn vegna fasteignaveðlán á íbúðarhúsnæði var lækkaður úr 50% í 35%.  Þessu fylgdu aftur strangar reglur um greiðsluhæfi.  Lesa má það úr kröfum BIS að 100% lán til íbúðakaupa væru í raun bönnuð, en útfærsla á því var sett í hendur fjármálaeftirlits viðkomandi lands.  Hér á landi kom þessi breyting til framkvæmda með reglum Seðlabankans nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja frá 2. mars 2007. Afleiðingin var að útlánageta fjármálafyrirtækja hafði aukist í kr. 285 fyrir hverjar 8 kr. í eigin fé eða um 185% frá því vorið 2003.

Þessi síðasta breyting hafði þau áhrif hér á landi, að fasteignaverð tók nýjan kipp upp á við.  Fram að útgáfu reglna nr 215/2007 hafði hægt á hækkunum og einnig verðbólgunni.  Stýrivextir voru talsvert háir þar sem Seðlabankinn var ennþá að berjast við að ná verðbólgumarkmiðum sínum.  Það er því alveg með ólíkindum að þessi breyting á eiginfjárkröfum hafi verið gerð í mars 2007 í liggur við í miðri skammaræðu seðlabankastjóra um óraunhæfar hækkanir á fasteignaverði og að ekki væri búið að ná tökum á verðbólgunni.  Ekki er því fyrir að fara að BIS hafi sett kvaðir á Seðlabankann, því í greininni þar sem fjallað er um 35% áhættustuðulinn, segir að hvert þjóðland taki sjálfstæða ákvörðun um það hvort áhættustuðullinn gæti verið of lágur fyrir aðstæður í landinu:

73  National supervisory authorities should evaluate whether the risk weights in paragraph 72 are considered to be too low based on the default experience for these types of exposures in their jurisdictions. Supervisors, therefore, may require banks to increase these risk weights as appropriate.

Þó kenna megi Basel II reglunum og BIS að nokkru um, þá þurfti Seðlabanki Íslands ekki að lækka áhættustuðulinn og opna þannig fyrir meira lánsfé til fasteignakaupa.  Málið er að Seðlabanki Íslands var líklega ekki einn um þetta.  Ekki að ég hafi kannað það, en mig grunar að aðrir seðlabankar hafi tekið nákvæmlega sömu skref og því Davíð og co talið þetta þvingaðan leik til að jafna samkeppnisstöðu íslensku bankanna.  Munurinn er bara sá að Seðlabanki Íslands var að berjast við að ná verðbólgumarkmiðum sínum, en aðrir ekki.  Kannski fóru íslensku bankarnir óvarlega með nýfengið frelsi, en það er hlutverk Seðlabankans að setja leikreglurnar og ef þær eru of rúmar, þá er ekki hægt að gagnrýna bankana fyrir að notfæra sér það.