Birt á Moggablogginu 23.5.2007 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd
Það er gott fyrir alla símasöluaðila og raunar líka þá sem nota tölvupóst, að kynna sér ákvæði fjarskiptalaga og eldri úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar um þessi mál. Skoðum fyrst hvað fjarskiptalög segja:
46. gr. Óumbeðin fjarskipti.
Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun.
Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim.
Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram.
Notendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt.
Þetta þýðir að ekki má senda tölvupóst nema viðtakanda sé gefinn kostur á að hafna frekari sendingum og þó svo að hann hafi ekki gert það í fyrsta sinn, þá getur hann hafnað frekari sendingum á síðari stigum. Í öðru lagi, þá gilda ekki bara bannmerkingar Þjóðskrár heldur einnig bannmerkingar símaskrár. Sá sem hringir út verður því að kanna hvort númer sé bannmerkt áður en hringt er í það. Það þýðir ekki að bera fyrir sig að viðkomandi hafi úthringilista sem hann fari eftir. Bera þarf hvert einasta númer á úthringilistanum saman við skráningu númersins í nýjustu símaskrá eða með því að fletta því upp á ja.is.
Næsta er að velta fyrir sér hvað telst samþykki. Fyrir þessu liggur einnig úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunar í máli þar sem fjármálafyrirtæki var að kynna nýja þjónustu. Málavextir voru eftirfarandi:
Viðskiptavinur sem hringt var í, var félagi í vildarþjónustu fjármálafyrirtækisins. Fyrirtækið var að kynna þjónustu sína um viðbótarlífeyrissparnað, sem viðskiptavinurinn var ekki áskrifandi að. Viðskiptavinurinn taldi að þar sem þessi þjónusta væri utan þeirra viðskipta sem hann átti við fjármálafyrirtækið, þá taldi hann sig varinn fyrir svona símtölum með bannmerkingu í símaskránni. Póst- og fjarskiptastofnun tók undir kvörtun viðskiptavinarins og kom með eftirfarandi ákvörðunarorð:
,,B var óheimilt að hringja í bannmerkt símanúmer A, sbr. 5. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, í þeim tilgangi að ræða við hana um viðskiptakjör og aðra þjónustuþætti sem henni stæðu til boða sem viðskiptavinur bankans."
Hvað þýðir þessi úrskurður? Tökum dæmi. Ég er viðskiptavinur hjá Vodafone og kaupi þaðan Internetþjónustu. Þar sem ég er með x-merkt símanúmer, þá er Vodafone og öllum undirfyrirtækjum þess óheimilt að hringja í mig til að bjóða mér aðra þjónustu fyrirtækisins, svo sem Og1, Fjölvarp eða þjónustu Mamma.is. Á móti er Símanum bannað að hringja í mig og bjóða Internetþjónustu.
Ég, eins og aðrir landsmenn, verð fyrir talsverðu ónæði af hálfu símasölumanna. Algengt er að slík símtöl hefjist á orðunum: ,,Hefður þú kynnt þér..." og hef ég tekið upp á þeim leiðindum að grípa frammí fyrir viðkomandi með orðunum ,,hefur þú kynnt þér bannmerkingar í símaskrá".
Þeir sem verða fyrir ónæði símasölumanna eiga rétt samkvæmt persónuverndarlögum að fá að vita hver er ábyrgur fyrir úthringingunni og fá samband við viðkomandi. Ég hef nokkrum sinnum reynt þetta, en alltaf fengið þau svör að viðkomandi sé ekki við eða að ég geti ekki fengið samband við viðkomandi þar sem hann taki ekki símann!!
Eins og fyrirsögnin segir, þá er Hive langt frá því að vera eitt um að brjóta gegn fjarskiptalögum. Ætli ég fái ekki svona 5 til 10 símtöl á mánuði frá aðilum sem telja sig yfir það hafna að fara að lögum.