Birt á Moggablogginu 1.8.2007 - Efnisflokkur: Hrunið - undanfari
Danske Bank virðist vera eitthvað í nöp við Ísland. Í dag birta þeir viðvörun um að allt geti farið í kalda kol hér sem og í Tyrklandi, Ungverjalandi og Suður-Afríku. Ef greiningarefni bankans er hins vegar skoðað, þá má þar finna nokkrar skýrslur/umsagnir um hina svo kölluðu ,,Emerging Markets" eða ,,nýmarkaði" án þess að fjallað sé um Ísland. Bankinn hefur m.a. undanfarna tvo mánuði birt skýrslur sem hann kallar Emerging Market Briefer, þar sem fjallað er um horfur á nýmörkuðum. Svo furðulega vill til að hvorki í í skýrslunni fyrir júlí, sem kom út 2/7 og má finna hér, né í skýrslunni fyrir ágúst, sem kom í dag og má finna hér, er að finna stafkrók um Ísland. Þannig að í almennri greiningarvinnu bankans um nýmarkaði, þá gefur hann ekki út álit sitt á Íslandi, en þegar vara þarf við versnandi horfum og hafa um það verulega neikvæð orð, þá er Ísland allt í einu þess virði að nefna.
Nú þegar þessi viðvörun bankans er lesin frekar, þá er talað um mikinn fjárlagahalla, en það á ekki við um Ísland. Viðskiptahallinn er mikill, en fjárlög eru ekki bara í jafnvægi, heldur hafa tekjur ríkissjóðs reynst mun meiri en áætlað var. Síðan er talað um fjármögnun fjárlagahalla sem vandamál og það geti valdið vanda. Þar sem hallinn er lítill sem enginn, þá getur þetta varla verið vandamál. Kannski er veriða að vísa í fjármögnun viðskiptabankanna, en íslensku bankarnir eru allir vel fjármagnaðir um þessar mundir og hafa verið að sýna verulega góða afkomu og sama á við um flest önnur íslensk útrásarfyrirtæki. Loks tala Danir um að kauptækifæri séu ekki mörg. Íslensk fyrirtæki hafa nú hingað til náð að hrista af sér slíka spádóma Dananna og vonandi gerist það aftur núna. A.m.k. hafa einhverjar greiningardeildir verið að spá fyrir um 20% hækkun Kaupþings og afkoma Landsbanka og Glitnis er ekkert til að kvarta yfir. Það stendur því ekki mikið eftir af viðvörun Dananna annað en að krónan gæti veikst, sem allir vita og reikna með. Til hvers Ísland var haft þarna með veit ég ekki, en það er ekki af þeim ástæðum sem nefndar eru í skjalinu.
Það er alvarlegur hlutur þegar banki eins og Danske Bank kemur með órökstuddar ályktanir um stöðu efnahagsmála hér á landi. Síðast tók það íslenska hagkerfið heilt ár að jafna sig eftir það sem ég vil kalla dylgjur Dananna. Nú er spurningin hvort viðbrögð héðan komi skjótt eða hvort við látum þetta yfir okkur ganga.
(Viðbót 15.12.2024: Svona var meðvirknin með bankakerfinu, enda var dælt í okkur endalausum lygum um stöðu bankanna.)